Kvikasilfur: Afeitrun eftir brottnám silfurfyllinga í tönnum

24 Mar 2015

Borið hefur á því hérlendis að fólk hefur haft áhyggjur af kvikasilfursinnihaldi í sumum bóluefnum fyrir ungabörn, en það magn er smávægilegt miðað við kvikasilfursmagn frá öðrum mengunarvöldum í umhverfi manna,  til dæmis í silfurfyllingum í tönnum. Umræðan um kvikasilfur í amalgamfyllingum virðist ekki hafa verið sérlega áberandi hér á landi, en öryggi þessara fyllinga er vægast sagt afar umdeilt. 

Mynd tekin af vef : htveir-heildræn heilsa Kvikasilfur
Kvikasilfur er heillandi málmur, silfurlitaður og fagur á að líta, að horfa á hann fljóta um getur fengið mann til að gleyma stað og stund. Mannkyn hefur fundið ýmis not fyrir kvikasilfur í gegnum tíðina, en smám saman hefur það komið í ljós að áhrif þess á mannslíkamann eru afar skaðleg. Ein fyrsta vísbendingin um skaðsemi málmsins var sú að hattagerðarmenn, sem notuðu kvikasilfur við sína iðju, áttu það til að skjálfa og  verða geðveikir. Þaðan kemur hugtakið „brjálaði hattarinn“ (e. mad hatter) sem margir tengja við hattarann í ævintýrinu um Lísu í Undralandi. Um miðja nítjándu öld var vitað að kvikasilfur væri að valda hötturum skaða og á næstu áratugum á eftir bönnuðu mörg lönd notkun þess við hattagerð, hins vegar tók það langan tíma að fá bannið í gegn í Bandaríkjunum, það tókst ekki fyrr en árið 1941.  Hér áður fyrr fannst á flestum heimilum hitamælir úr gleri. Innan í mælinum flaut þessi mjúki silfurlitaði málmur, kvikasilfrið. Fólk vissi að ef hann brotnaði skyldu börnin send út að leika í skyndi, hanskar settir upp og passað upp á að sem minnst kæmi í snertingu við málminn, hann skyldi þrífa upp og fjarlægja af heimilinu hið snarasta. Nú til dags notast flestir við rafræna hitamæla og hinn gamli kvikasilfursmælir orðinn hálfgerður forngripur. Vegna vitneskju okkar um skaðsemi kvikasilfurs hefur dregið verulega úr notkun á kvikasilfri. Þrátt fyrir það heldur styrkur kvikasilfurs í sjó og vötnum áfram að aukast, aðallega af völdum iðnaðarmengunar en einnig af öðrum völdum svo sem notkun á amalgami (tannsilfri), seyru úr skólphreinsistöðvum og vörum sem urðaðar hafa verið með öðru sorpi, til dæmis ljósabúnaði, rafeindabúnaði, hitamælum, raftækjum og rafhlöðum. 

Skaðsemi kvikasilfurs
Kvikasilfur er eitrað efni, það getur í mjög lágum styrk skaðað tauga-, ónæmis-, hjarta- og æðakerfið auk starfsemi nýrna. Það getur haft afar skaðleg áhrif á taugakerfi fósturs í mótun og dregið úr eðlilegum þroska þess. Íslendingum er ekki talin stafa mikil hætta af kvikasilfri úr sjávarfangi þar sem kvikasilfur hefur ekki mælst í miklu magni í hafinu í kringum landið, né í fiski hérlendis. Hins vegar getur neysla sjávarfangs úr Miðjarðarhafi og öðrum innhöfum verið varasöm því þar hefur kvikasilfur greinst í nokkrum mæli. Á undanförnum árum hefur það komið betur í ljós hve mikil hættan er á þroskahömlun á heila í ófæddum börnum vegna neyslu móður á fiski og öðrum sjávarafurðum menguðum af kvikasilfri. Hjá nágrönnum okkar Færeyingum og Grænlendingum hefur þurft að fara fram á að börn og konur á barneignaraldri neyti ekki afurða úr sjávarspendýrum vegna hás hlutfalls kvikasilfurs í þeim, en kvikasilfursmengun eykst í eftir því hve hátt uppi dýrin eru í fæðukeðjunni. 

Kvikasilfur í silfri í tönnum
Borið hefur á því hérlendis að fólk hefur haft áhyggjur af kvikasilfursinnihaldi í sumum bóluefnum fyrir ungabörn, en það magn er smávægilegt miðað við kvikasilfursmagn frá öðrum mengunarvöldum í umhverfi manna,  til dæmis í silfurfyllingum í tönnum. Umræðan um kvikasilfur í amalgamfyllingum virðist ekki hafa verið sérlega áberandi hér á landi, en öryggi þessara fyllinga er vægast sagt afar umdeilt. Helmingur þess efnis sem notað er í tannsilfrið er kvikasilfur, hinir málmarnir eru silfur, tin, kopar og smávægilegt magn af öðrum málmum. Ekki hefur tekist að sýna með afdrifaríkum hætti fram á skaðsemi amalgamfyllinga með klínískum rannsóknum, en á hinn bóginn er hæpið að fullyrða um öryggi þeirra (Þó hefur verið sýnt fram á verulega hættu við það að tyggja reglulega nikótíntyggjó með amalgamfyllingar í munni þar sem það eykur stórlega kvikasilfursmagn í þvagi, svo mikið að það mælist yfir hættumörkum). Vitað er að það form af kvikasilfri sem fyrirfinnst í silfurfyllingum lekur í smá skömmtum út í líkamann yfir langan tíma og safnast fyrir í líffærum. Áhrif kvikasilfurs á líkamann geta því komið fram löngu eftir að fyllingar eru komnar í tennurnar. Margir sem látið hafa fjarlægja silfurfyllingar sverja fyrir það að þeir finni mikinn mun á heilsu sinni eftir það. Á Íslandi eru tannlæknar að miklu leyti hættir að notast við amalgam, þó eru einstaka sé víst enn að nota það óski viðskiptavinurinn eftir því, en amalgam fyllingarefnið er gjarnan ódýrara en annað fyllingarefni. Einnig mætti taka fram að sumir einstaklingar geta verið mjög viðkvæmir fyrir hinum ýmsu málmum. Til dæmis er nikkelofnæmi frekar algengt. Dæmi eru um að fólk sé hreinlega með ofnæmi fyrir einum eða fleirum af þeim málmum sem fyrirfinnast í amalgam fyllingunni og orðið mikið veikt eftir að fá silfur í tennurnar. Einnig eru dæmi þess að fólk hafi fengið ofnæmi eða óþol fyrir amalgamfyllingunum á ákveðnum tímapunkti í lífi sínu, þá gjarnan eftir róttækar líkamlegar breytingar eða mikið álag eins og til dæmis eftir geislameðferð við krabbameini.

Einkenni kvikasilfurseitrunar
Hér verða talin upp nokkur einkenni kvikasilfurseitrunar. Einkennin geta verið misjöfn eftir því hvaða tegund kvikasilfurs er um að ræða, einnig geta einkenni verið mismunandi eftir einstaklingum. Eftirfarandi er ekki tæmandi listi en farið er yfir helstu einkenni og vel það. Einkenni sem tengjast taugakerfi geta verið skapsveiflur, taugaveiklun, pirringur og aðrar tilfinningabreytingar, svefnleysi, höfuðverkur, óeðlilegar skynjanir, vöðvakippir, skjálfti, slappleiki, vöðvarýrnun, minnkuð vitsmunastarfsemi, taugatruflanir og skert þroskun taugakerfis, sérstaklega á fósturskeiði. Önnur einkenni eru skert sjónsvið, náladofi í útlimum og munni, tap á samhæfingu, vöðvaslappleiki, tal- og heyrnartruflanir. Þar sem margar barnshafandi konur hafa orðið fyrir eitrun af þessu tagi hafa eituráhrif kvikasilfurs á börn þeirra verið rannsökuð. Komið hefur fram að heilinn er mjög viðkvæmur fyrir slíkri eitrun á fósturskeiði og ýmsar truflanir hafa komið fram, til dæmis skert geta til að hugsa og einbeita sér, skert minni og hreyfigeta, jafnvel þótt engin eða lítil áhrif komi fram hjá móðurinni. Stórir skammtar af efninu geta leitt til nýrnabilunar, öndunarstopps og dauða. Kvikasilfurseitrun getur komið fram sem útbrot og bólgur í húð. Ef kvikasilfur er tekið inn um munn getur það leyst upp vefi og verið tekið upp í smáþörmunum að einhverju leyti, ef mikið af því er innbyrt getur það valdið blóðugum niðurgangi. Mörg önnur einkenni hafa verið sett í samband við kvikasilfurseitrun, til dæmis háþrýstingur, legslímuflakk, höfuðverkir, suð í eyrum, ófrjósemi, málmbragð í munni, svimi, blæðingar eða sár í munni, fæðuóþol, magakrampi, hækkuð þríglýseríð í blóði, hækkað kólestról, þrálátar vírus-, bakteríu- og sveppasýkingar, gigt, MS, truflanir á skjaldkirtli, nýrnahettum og öðrum innkirtlum, sykursýki, óútskýrt blóðleysi, nætursviti, vefjagigt, ófrjósemi, suð í eyrum, sjálfsofnæmissjúkdómar,  lifrarskaði,  minnikun á virkni sýklalyfja fyrir einstaklinginn,  ofnæmi og fleira.  Hægt er að láta mæla kvikasilfursmagn í blóði, en það er mjög dýrt og er varla gert hér á landi nema mjög staðfastur grunur sé um kvikasilfurseitrun. Hins vegar er á einfaldan hátt hægt að senda af sér hársýni beint á rannsóknastofur erlendis í gegnum vefsíður á internetinu og láta greina í því kvikasilfursmagn. Þá er best að ganga úr skugga um að rannsóknastofan sé raunveruleg og að af henni fari gott orðspor svo maður lendi ekki í einhvers konar plati eða féflettingum.

Brottnám silfurfyllinga
Margir velja að láta fjarlægja amalgamfyllingar sínar. Gott er að finna tannlækni með reynslu í þessum málum sem meðvitaður er um öruggar aðferðir við að fjarlægja silfrið, til dæmis með því að nota plastdúk fyrir kok til að koma í veg fyrir að viðkomandi innbyrði mikið magn af kvikasilfri við brottnámið. Erfitt er að komast hjá því að verða kvikasilfursmengun við brottnámið þar sem að eitthvað af því gleypist og það þyrlast um þegar hreyft er svona við því. Kvikasilfursgildi í líkamanum mælast hækkuð í fólki talsvert lengi eftir slíka aðgerð. Á þeim tíma er talið gott leyfa líkamanum að vinna óáreittum og vera ekki að fara í mikla afeitrun strax vegna þess að á þeim tíma er kvikasilfursmagn í blóði hækkað og málmurinn á hringsóli um kerfið, því er óráðlegt að bæta enn á kvikasilfrið í blóðinu með því að taka inn afeitrandi jurtir sem fjarlægja málminn úr líffærunum og koma honum á skrið út í blóðið. Á þessum tíma er gott að hlúa vel að sér, stunda létta hreyfingu og sofa vel, borða hollan mat og þessháttar. Konum er ekki ráðlagt að reyna að verða ófrískar næstu þrjá mánuðina eftir slíka aðgerð. Sé kona þegar ófrísk með silfurfyllingar í tönnum skyldi hún aldrei láta fjarlægja fyllingar sínar fyrr en eftir að barnið er fætt og vanið af brjósti. 

Bætiefni til afeitrunar
Hér verða talin upp bætiefni sem notuð eru til að hjálpa kerfinu að losna við þungmálma á borð við kvikasilfur. Lykiljurtirnar tvær til úthreinsunar kvikasilfurs eru klórella (e. Chlorella) og kóríander (e. Coriander eða Cilantro).  Best er að taka þær inn samtímis þar sem þær vinna vel saman í að ná kvikasilfri úr líffærunum og að skila þeim út úr líkamanum. Rétt er að taka fram að þeir sem enn eru með silfurfyllingar í munni ættu alls ekki að taka inn klórellu og kóríander (nema sem krydd út á mat) fyrr en fyllingarnar eru komnar úr líkamanum, og helst ekki fyrr en þrír mánuðir eru liðnir frá brottnámi amalgamsins. Einnig væri varasamt fyrir ófríska konu að taka inn þessar jurtir þar sem það gæti dregið eiturefni úr líffærum hennar út í blóðið og því komið hærri gildum af eiturefnunum til fóstursins en ella. Tæki ófrísk kona þessar jurtir inn á meðan hún væri með amalgam í tönnum yrði það henni og ekki síst barninu stórhættulegt. Eins og áður var nefnt er best að bíða í þrjá mánuði eftir að silfurfyllingar eru teknar út þar til þessar hreinsandi jurtir eru teknar inn. Önnur bætiefni sem styðja við afeitrun þungmálma úr kerfinu eru hvítlaukur, MSM, fiskiolía og aðrar góðar olíur eins og hampolía og hörfræjaolía, andoxunarefni á borð við C-vítamín og E-vítamín. Einnig er gott að taka inn steinefni þar sem að líkaminn heldur frekar í verri málmana ef hann er ekki með nægar birgðir af steinefnunum og málmunum sem eru hollir fyrir líkamann. Af þessum steinefnum er mikilvægt  að fá nóg selen, sink (e. Zink) og magnesíum. Góð steinefnablanda ætti að duga til. Náttúrulegt sjávarsalt eða himalayasalt og kókósvatn hjálpa til við að koma jafvægi á sölt og elektrólýtur (e. Electrolytes) í blóði. Meltingarensím hjálpa til við alla meltingu og geta hjálpað til við að melta klórellu og kóríander fyrir þá sem eiga erfitt með jurtirnar. Magaflóra til inntöku getur hér hjálpað til að styðja við úthreinsun og halda heilbrigðu jafnvægi í þörmunum. Að sama skapi er gott að sjá til þess að fá nóg af trefjum. Á meðan á afeitrun stendur er gott að borða mikið af próteinum, grænmetisætur ættu að taka inn auka hrísprótein eða hampprótein vegna þess að amínósýrurnar í próteinunum auðvelda hlutina verulega í afeitrunarferlinu. Ekki er mælt með föstum á þessum tíma og best er að stíga varlega til jarðar í hreinsuninni svo að kvikasilfursmagn í blóði verði ekki of hátt á meðan að á hreinsun stendur. 

Greta Ósk Óskarsdóttir

Heimildir: 
  
  1Wedeen, RP (1989). "Were the hatters of New Jersey 'mad'?". American Journal of Industrial Medicine 16 (2): 225–33. doi:10.1002/ajim.4700160213. PMID 2672802 og Kitzmiller, Kathryn J. "The Not-So-Mad Hatter: occupational hazards of mercury". Chemical Abstracts Service. American Chemical Society. Skoðað 9. Mars 2013.
  
  2Vitnað í grein á síðu umhverfisstofnunar um Kvikasilfur: http://www.ust.is/umhverfisstofnun/umraedan/grein/2013/02/20/Kvikasilfur/

  3Vitnað í grein á Vísindavef Háskóla Íslands um Kvikasilfur: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=60784

  4Sjá til dæmis greinina „Cilantro and Chlorella can Remove 80% of Heavy Metals from the Body Within 42 Days“ á vefnum Consicous Life News: http://consciouslifenews.com/cilantro-chlorella-remove-80-heavy-metals-body-42-days/ og greinina „Mercury Detoxification Protocol“ á vefsíðu dr. Mercola Mercola.com: http://www.mercola.com/article/mercury/detox_protocol.htm