Lærðu að búa til þínar eigin húðvörur

20 Jan 2016

Veldu grunnolíu sem hentar þinni húð. Við grunnolíurnar má bæta ilmkjarnaolíum eða JURTUM, Allt eftir því sem hentar þér og þínum. Búðu til dásamlegt og nærandi smyrsl sem er lífrænt, náttúrlegt og án allra aukaefna.

Jojobaolía
Sérstaklega góð fyrir ilmkjarnaolíur þar sem hún þránar ekki og eykur geymsluþol annarra olía. Hún smýgur vel inn í húðina, lagar skemmda húð og er hlutlaus húðolía fyrir allar húðgerðir. Hún hentar því vel fyrir fólk með erfiða húð og gelgjubólur. Jojoba olíu er einnig hægt að nota sem hárnæringu og er góð í líkamsnudd. Jojobaolían hentar líka vel fyrir karlmenn til að nota sem andlitsolíu eftir rakstur.

Aprikósuolía
Þessi olía hentar öllum húðgerðum. Gott að nota hana á viðkvæma húð og við húðbólgum. Hún er náttúrulega rakagefandi, smýgur auðveldlega inn í húðina og er sérstaklega góð til að viðhalda teygjanleika húðarinnar. Góð gegn öldrunarbreytingum í húð.

Avocado olía
Avocado olía er dökkgræn og mjög E-vítamínrík.  Hana er bæði hægt að nota eina sér og eins til að auka næringu og gefa mýkingu í olíublöndu. Avocado olían er mjög góð á þurra húð og exem og styrkir húðina. Hún er góð ein sér sem andlitsolía en þessi olía þránar auðveldlega og þarf því að geyma í ísskáp eftir opnun.

Rósaberjaolía (Rosehip seed oil)
Þessi olía er rakagefandi og vinnur gegn aldursbreytingum í húð. Hún minnkar örmyndum eftir bruna, uppskurði og áverka. Vinnur gegn hrukkum, húðliti og blettóttri húð. Mýkir og styrkir húðina og má nota til að vinna á legusárum. Einnig gott að setja á húðfleiður eftir rakstur. Þessi olía þránar auðveldlega og þarf því að geyma í ísskáp eftir opnun.

Hveitikímolía
Hveitikímolía inniheldur mikið E-vítamín og er mjög góð fyrir þurra húð. Hún er gagnleg við endurnýjun húðarinnar, minnkar t.d. örmyndum og húðlit. Hveitikímolía er gagnleg á exem, þurra og sprungna húð og á eldri húð. Mjög gott að blanda henni í aðrar burðarolíur fyrir heilnudd ef húðin er þurr því að hún er mjög næringarrík og svo eykur hún geymsluþol þeirrar olíu sem henni er blandað við.

Sæt möndluolía
Möndluolía er hin hefðbundna olía fyrir húðmeðhöndlun og nudd. Hún er ljósgul að lit og er unnin úr kjarnanum. Hún er góð fyrir allar húðgerðir, einkum þurra og viðkvæma húð, smýgur auðveldlega inn í húðina og er einstaklega hentug fyrir ungabörn. Notuð við kláða, húðeymslum, bólgum, þurrki og á brunasár. Hún hefur mýkjandi eiginleika og er rík af steinefnum og vítamínum.

Kókoshnetuolía
Kókoshnetuolía kemur á jafnvægi, meðhöndlar og hressir upp á húðina og er hentug fyrir þurra, hrjúfa og sprungna húð og slitið hár. Hægt að nota til að fjarlægja farða af andliti, í munnskol eða blanda með matarsóda til að gera sitt eigið tannkrem.

Kvöldvorrósarolía
Mjög góð á psoriasis, exem, sár og til að fyrirbyggja öldrunaráhrif í húð. Einnig við fyrirtíðaspennu og hormónabreytingum við tíðahvörf. Hún hjálpar til við að viðhalda teygjanleika húðarinnar.

Höfundur: Linda Sveinbjörnsdóttir.