Veist þú þetta?

06 Nov 2014

Svarið býr í náttúrunni eru kjörorð okkar hjá Heilsuhúsinu og við efumst ekki um að í náttúrunni er að finna óþrjótandi uppsprettu sem getur verið okkur til heilsubótar og vellíðunnar ef rétt er með farið. Í gegnum tíðina höfum við mörg hver fjarlægst þau svör og þær lausnir sem búa í náttúrunni og í dag eru heilsubætandi jurtir, náttúrulyf og bætiefni mörgum framandi heimur.

Þess vegna langar okkur til þess að kynna agnarlítið brot af allri þeirri dásemd sem býr í náttúrunni og hvað þetta getur gert fyrir heilsu okkar og líðan. Við hvetjum þig líka til þess að kíkja til okkar í Heilsuhúsið, spyrja og spjalla um hvað náttúran hefur að færa þér, því við erum hér fyrir þig og þína heilsu.

 

 -Hvað gerir turmerik?
Þessi merkilega rót hefur mjög marga heilsubætandi eiginleika. Hún getur virkað bólgueyðandi, nærandi fyrir taugakerfið og jafnvel virkað gegn elliglöpum og alzheimer. Hún er talin krabbameinshamlandi og er góður andoxari. Lifrin okkar nýtur einnig góðs af turmerik rótinni.

-Hvað gerir engifer?
Engifer hefur lengi verið þekkt sem lækningajurt og sem krydd í matargerð. Það er mjög vermandi, gott fyrir meltingu og getur virkað vel við ferðaveiki og ógleði. Það er mjög bólgueyðandi og verkjastillandi og hefur hjálpað fjölmörgum sem þjást af gigtar- og bólgusjúkdómum.

 -Hvað er chlorella?
Chlorella er þörungur sem er stútfullur af næringarefnum. Hann inniheldur meðal annars talsvert magn amínósýra, B vítamíns og blaðgrænu. Chlorella er einnig mjög hreinsandi og hefur verið notaður mikið í því skyni  að hreinsa út þungmálma og önnur skaðleg efni sem safnast geta fyrir í mannslíkamanum.

-Hvað er Triphala?
Triphala er blanda þriggja ávaxta sem notuð hefur verið í indverskum lækningum í aldaraðir. Blandan getur virkað styrkjandi og endurbyggjandi fyrir ristil og smáþarma. Hún getur virkað létt hægðalosandi en veldur þó ekki óþægindum.

-Hvað er næringarger?
Næringarger er notað til bragðbætingar og sem næring í grænmetis- og hráfæðisrétti. Næringarger er allt öðruvísi en hefðbundið bakstursger, en gerillinn í því er dauður og hentar því ekki í gerbakstur. Sökum þess að gerillinn er óvirkur þá hefur næringarger ekki slæm áhrif á fólk sem þjáist af sveppasýkingum eins og af völdum Candida albicans. Næringarger er mjög B vítamínríkt (sérstaklega af B12) og stærstur hluti næringarinnar kemur frá próteini.

-Hvað er Astaxanthin?
Astaxanthin er talið nærandi og styrkjandi fyrir húðina og vernda hana fyrir skaðlegum geislum sólarinnar, koma í veg fyrir sólarexem, styrkja ónæmiskerfið, efla orkubúskapinn, vernda og styrkja liðina, auka þol og styrk við æfingar og draga úr harðsperrum.

-Hvað er vínsteinslyftiduft?
Það er lyftiduft sem samanstendur af vínsteini og matarsóda. Þessi blanda virkar vel sem lyftiefni.  Oftast er vínsteinslyftiduft glútenlaust og laust við ál. Þetta lyftiduft er fljótvirkandi og því er best að láta deig aldrei bíða lengi áður sen það er sett í ofninn. Yfirleitt þarf sama magn af vínsteinslyftidufti og öðru lyftidufti.

-Má steikja uppúr ólífuolíu?
Það er ekki æskilegt að steikja upp úr ólífuolíu, þar sem hún inniheldur bæði ein- og fjölómettaðar fitusýrur sem eru viðkvæmar fyrir hita. Það þýðir að olían brennur auðveldlega og oxast, sem er mjög heilsuspillandi. Einnig geta myndast í ólífuolíunni transfitusýrur ef hún er hituð mikið. Það er kannski óhætt að nota hana við vægan hita og í ofnrétti, en til steikingar við mikinn hita er miklu betra að nota til dæmis bragð og lyktarlausa kókosfitu.