Brjóstagjöf og bætiefni

02 Jan 2015

Hæ hæ.

Mig langar til að forvitnast aðeins. Þannig er mál með vexti að ég er með strákinn minn á brjósti, þó bara á kvöldin, en hann er orðinn 20 mánaða. Ég var að spá í hvort það sé óhætt fyrir mig að taka Green Coffeebean extract og Betulic töflurnar, eða jafnvel eitthvað annað sambærilegt?

Kv. S

Sæl Vertu.

Takk fyrir spurninguna.

Í raun má segja að allar jurtir og bætiefni sem eiga að virka grennandi eða hreinsandi séu ekki æskileg á meðan kona er með barn á brjósti. Green Coffeebean er talið hafa grennandi áhrif og Betulic inniheldur birki, sem er vatns og bjúglosandi.

Mínar ráðlegingar eru yfirleitt alltaf þær að það er betra að einbeita sér að inntöku bætiefna sem skila bæði móður og barni hagnaði (þú getur séð hugmyndir hér hægra megin á síðunni), heldur en fara að vinna í aukakílóum og úthreinsun. Við vitum oft lítið um hvort jurtir hafa áhrif gegnum brjóstamjólk og það er einfaldlega betra að láta litlu krílin njóta vafans. Þetta er stutt tímabil af heilli ævi og ástæða til að bíða með slíkt þar til brjóstagjöf er lokið. Þá má svo sannarlega taka svolítið til og koma líkamanum í gott ástand. Ég skil vel að oft verða konur dálítið óþolinmóðar og vilja vaða í að koma sér í form, en trúðu mér, það er betra að lofa þessu tímabili að klárast áður en slíkar aðgerðir hefjast.

Gangi þér allt í haginn!

Inga næringarþerapisti