Meðferð og tegundir bauna

26 Feb 2015

Fjölmargar tegundir eru til að baunum og linsubaunum.  Gott er að vita hvernig á að meðhöndla baunirnar og sumar þarf að leggja í bleyti nokkrum klukkustundum áður en þær eru soðnar.  Í hvaða rétti getum við notað ýmsar tegundir bauna? Hér eru góðar upplýsingar um meðhöndlun bauna.  

•    Yfirfarið baunirnar og fjarlægið skemmdar baunir eða steina sem oft finnast inn á milli baunanna.

•    Skolið baunirnar vel áður en þær eru lagðar í bleyti.

•    Baunir þurfa að liggja í bleyti í 10-20 tíma áður en þær eru soðnar, eftir tegundum 

•    Linsur þarf ekki að leggja í bleyti fyrir suðu.

•    Þegar baunir eru lagðar í bleyti þarf 3-4 hluta af vatni fyrir 1 hluta af baunum.

•    Baunir drekka í sig mikinn vökva og auka rúmmál sitt og þyngd liðlega tvöfalt við matreiðslu.

•    Baunir þarf að sjóða í um þreföldu eigin magni af vatni.

•    Látið suðuna koma upp og sjóðið við vægan hita í þann tíma sem tilgreindur er í töflu.

•    Fleytið froðuna sem myndast við suðu, af og til af meðan baunirnar sjóða.

•    Við suðu á sojabaunum skilur hýði baunanna sig frá þeim og flýtur upp. Fleytið það ofan af.

•    Gætið þess að fullsjóða ekki baunir sem nota á í t.d. pottrétti þannig að þær fari ekki í mauk við áframhaldandi matargerð.

•    Heppilegt er að leggja í bleyti og sjóða stóran skammt af baunum og frysta í litlum einingum. 

•    Soðnar baunir geymast í 3-5 daga í kæliskáp.

Aduki baunir 
Aduki baunir eru kínverskar litlar dökkrauðar baunir sem hafa hærra kolvetnamagn en margar aðrar baunategundir og eru sætari á bragðið. Við að láta þær spíra þá eykst próteininnihald þeirra. Góðar til spírunar en einnig í hina ýmsu pott- og pönnurétti, súpur, salöt eða blandað saman við soðin hrísgrjón. 


Augnbaunir 
Augnbaunir eru m.a. ræktaðar í Mexíkó. Þær eru ljósar með svörtum „augum". Góðar í súpur, salöt og margvíslega pott- og pönnurétti. Einstaklega heppilegar til marineringar í olíu/ediks eða öðrum kryddlegi og nota sem meðlæti með öðrum mat eða blanda þeim í salöt. 


Kjúklingabaunir 
Eru ljósdrappleitar með ójafnt yfirborð og svolítið hnetukenndar á bragðið. Mikið ræktaðar í Miðjarðarhafslöndunum. Góðar í súpur og pott- og pönnurétti, einnig góðar maukaðar í buff. Þær eru til ristaðar og kryddaðar og eru þá notaðar líkt og salthnetur. Kjúklingabaunir eru uppistaðan í hummus. 


Linsur 
Til eru margar mismunandi tegundir af linsum. Þeim er oftast skipt í tvo megin flokka. Annars vegar stórar flatar, oftast drapp- græn- og brúnleitar. Hins vegar litlar linsur, rauðar persneskar, gular og grænar kínverskar. Linsur eru m.a. ræktaðar í Egyptalandi, USA og Kanada. Góðar í súpur, salöt, pott- og pönnurétti. Einnig mjög góðar marineraðar með ýmsu grænmeti og kryddi. 


Mung baunir 
Mung (moong) baunir eru litlar grænar og hnöttóttar. Einnig nefndar grænar sojabaunir. Þær eru m.a. ræktaðar í Kína, Afríku, Thailandi og Ástralíu. Góðar til að láta spíra og best þekktar sem kínverskar bauna-spírur. Mungspírur má borða bæði soðnar og ósoðnar. 


Pintobaunir 
Pintobaunir eru örlítið aflangar og brúnyrjóttar á litinn. Mikið notaðar í Mexíkanska baunarétti s.s. "refrito" og „chilli". Einnig góðar í súpur, pott- og pönnurétti. 


Nýrnabaunir 
Um 15 mm langar, nýrnalaga og til í mörgum litum m.a. rauðbrúnar, svartar, brúnleitar og hvítar. Góðar í súpur, pott- og pönnurétti, blandaðar með grænmeti, hrísgrjónum og kjötréttum. Einnig góðar maukaðar í buff. 


Smjörbaunir 
Mjólkurhvítar, stórar og flatar í útliti. Getur verið betra að fjarlægja hýðið eftir suðu því það er nokkuð seigt. Góðar í súpur, pott- og pönnurétti og salöt. Einnig mjög góðar marineraðar með ýmsu grænmeti og kryddi. 


Sojabaunir 
Eru stundum nefndar kjöt austursins vegna þess hversu þýðingarmikil fæðutegund þær eru hjá mörgum austrænum þjóðum. Ræktaðar m.a. í Brasilíu, Kína, Japan og USA. Úr þeim eru framleiddar hinar ýmsu fæðutegundir s.s. sojamjöl, sojakjöt, sojamjólk, sojasósa, tofu og miso. Mikið notaðar og góðar í blandaða bauna- og pottrétti. Þær eru þó meira notaðar og vinsælar maukaðar í baunabuff.

Fjölbreytt úrval bauna fást í verslunum Heilsuhússins.  

Einnig er hægt að kaupa í netverslun.  Smelltu hér til að skoða.