Hörfræ fyrir hold og huga

09 Mar 2015

Fram kemur á netmiðlinum www.hringbraut.is að ein mikilvægasta fæðutegundin eru trefjar sem eru þeir plöntuhlutar sem finnast einkum og sér í lagi í ystu lögum róta, fræja og ávaxta. Í næringarfræðinni eru trefjar taldar með kolvetnum og sagðar gríðarlega mikilvægar fyrir heilbrigða líkamsstarfsemi, einkanlega þarmaflóruna og alla meltingarstarfsemi.

Matvörur sem eru ríkar af trefjum eru kornvörur, grófkornabrauð, haframjöl, hnetur, fræ, baunir og ávextir á borð við appelsínur, epli og bláber. Upplagt er að venja sig við trefjarnar strax í morgunmatnum og þá er gott að hafa í huga að múslí er með trefjaríkustu fæðutegundum sem hægt er að fá sér – og þá ekki síður hveitiklíð og hörfræ, en í hverjum 100 grömmum af tveimur síðastnefndu fæðunum eru á milli 30 og 40 grömm af trefjum. Munið að það þarf að mylja hörfræ áður en það er borðað. Hægt er að kaupa mulin fræ í búð, en mun ódýrara er þó að kaupa poka af heilum fræjum og mylja í blandaranum. Mulningurinn er best geymdur í plastboxi inni í ísskáp milli þess sem handfylli er skellt út á hafragrautinn, salatið eða próteindrykkinn.