Langvinnir lífsstílsskjúkdómar

25 Apr 2016

Frá örófi alda hafa smitsjúkdómar leikið mannkynið grátt. Lengst af hafði læknisfræðin fá svör, meðferð og forvarnir voru ómarkvissar, enda var þekking á eðli og útbreiðslu þessarra sjúkdóma takmörkuð. Í upphafi síðustu aldar voru lungnabólga, inflúensa, berklar og iðrasýkingar algengustu dánarorsakirnar víðast hvar á Vesturlöndum.

Axel F. Sigurðsson er sérfræðingur í lyf- og hjartalækningum og er starfandi hjartalæknir á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og í Hjartamiðstöðinni í Kópavogi. Hann heldur einnig úti vefsíðunum mataraedi.is og docsopinion.com sem er ætlað að miðla fróðleik um mataræði, heilbrigðan lífsstíl, sjúkdóma og forvarnir.Berklar hafa sennilega valdið fleiri dauðsföllum en nokkur annar smitsjúkdómur enda hafa þeir fylgt mannkyninu frá forneskju. Talið er að berklar hafi borist til Íslands strax á landnámsöld. Um aldamótin 1900 voru berklar orðnir mjög algengt vandamál hér á landi og létust um 150-200 manns árlega vegna sjúkdómsins á árabilinu 1912-1920.

Í dag er öldin önnur. Byltingarkenndar framfarir hafa orðið í forvörnum og meðferð smitsjúkdóma þar sem sóttvarnir og bólusetningar gegna lykilhlutverki. Þó berklum hafi ekki verið útrýmt hefur útbreiðsla sjúkdómsins verið heft, berklahælunum hefur verið lokað eða þau fengið nýtt hlutverk.

Framfarir í læknisfræði á síðustu áratugum hafa gjörbreytt mynstri sjúkdóma í samfélaginu. Smitsjúkdómar eru ekki lengur algengasta dánarorsökin. Nú látast flestir vegna hjarta- og æðasjúkdóma, krabbameina, langvinnra lungnasjúkdóma og sykursýki. Þessir sjúkdómar eru gjarnan nefndir langvinnir lífsstílssjúkdómar.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) hefur ályktað að langvinnir lífsstílssjúkdómar valdi um 38 milljónum dauðsfalla árlega, þar af eru 17 milljónir sem látast áður en þeir ná sjötugsaldri. Hjarta- og æðasjúkdómar eru stærsta vandamálið, þar á eftir koma krabbamein, langvinnir lungnasjúkdómar og sykursýki. 

Langvinnir lífsstílssjúkdómar eiga það sameiginlegt að lífsstíll okkar hefur mikil áhrif á líkurnar á að við fáum þessa sjúkdóma og látumst af þeim fyrir aldur fram. Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur sérstaklega ályktað að tóbaksnotkun, kyrrseta, ofnotkun áfengis og óhollt mataræði auki líkur á langvinnum lífsstílssjúkdómum.

Ljóst er að lýðheilsumarkmið íslensku þjóðarinnar hafa breyst mikið á skömmum tíma. Þótt baráttan sé nýhafin hefur þegar náðst mikill árangur í baráttunni við lífsstílssjúkdóma hér á landi. Þannig hefur dánartíðni vegna kransæðasjúkdóms lækkað umtalsvert síðustu 30 árin, bæði vegna forvarna og framfara í meðferð sjúkdómsins.

Þrátt fyrir lækkandi dánartíðni er algengi hjarta-og æðasjúkóma enn hátt. Margir lifa með sjúkdómseinkenni árum saman og búa þá jafnan við skert lífsgæði.

Þó flestum sé ljóst að markvissar forvarnir séu sterkasta vopnið í baráttunni við langvinna lífsstílssjúkdóma eru ekki allir sammála um hvaða leiðir eru farsælastar til árangurs. Barátta okkar við reykingar er þó gott dæmi um hversu miklum árangri má ná með samstilltu og einbeittu átaki. 

Árið 1990 reyktu rúmlega 30 prósent fullorðinna einstaklinga hér á landi en árið 2013 var talan komin niður í 11.4%. Stóran hluta lækkunar á dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma má rekja til minnkandi reykinga í samfélaginu.

Undanfarin ár hefur tíðni offitu vaxið hratt um allan heim. Nýleg alþjóðleg samantekt sýndi að 27.5% fleiri fullorðnir og 47.1% fleiri börn hafa offitu en fyrir 30 árum. Áhugavert er að þessi aukning hefur orðið bæði í löndum þar sem velmegun ríkir og í fátækari löndum. Offitu fylgir aukin hætta á langvinnum lífsstílssjúkdómum eins og sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómum og sumum tegundum krabbameina. 

Ekki er fyllilega ljóst hvað hefur valdið hratt vaxandi tíðni offitu um allan heim og ljóst að skýringarnar eru margþættar. Líklegt er að baráttan við lífsstílssjúkdóma muni á næstu árum beinast í miklum mæli að offitunni og fylgikvillum hennar.

Mataræði
Þótt margir þættir í lífsstíl okkar hafi áhrif á líkurnar á að við veikjumst liggur fyrir að hollt mataræði gegnir lykilhlutverki.

Reglulega eru gefnar út leiðbeiningar um mataræði sem ætlaðar eru almenningi hér á landi. Þessar leiðbeiningar eru leiðandi í baráttunni við lífsstílssjúkdóma.

Lengi vel beindust ráðleggingar fræðimanna að samhenginu á milli mataræðis og magns kólesteróls í blóði. Ráðlagt var að takmarka neyslu harðrar fitu og kólesteróls í fæðu. Margir sérfræðingar telja að þessar áherslur hafi hjálpað til að draga úr dánartíðni vegna kransæðasjúkdóms, m.a. hér á landi.

Aðrir hafa bent á að leiðbeiningar um mataræði hafi sent matvælaframleiðendum röng skilaboð sem orðið hafi til þess að neysla á viðbættum sykri og unnum kolvetnum hafi aukist óhóflega í kjölfar minni fituneyslu. Hugsanlega gæti þetta hafa stuðlað að hratt vaxandi tíðni offitu og sykursýki af tegund 2.

Axel F. Sigurðsson er sérfræðingur í lyf- og hjartalækningum og er starfandi hjartalæknir á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og í Hjartamiðstöðinni í Kópavogi. Hann heldur einnig úti vefsíðunum mataraedi.is og docsopinion.com sem er ætlað að miðla fróðleik um mataræði, heilbrigðan lífsstíl, sjúkdóma og forvarnir.



Foodloose – alþjóðleg ráðstefna um áhrif mataræðis á langvinna lífsstílssjúkdóma í Hörpu 26. maí. 

Ráðstefnan ber heitið Foodloose. Þar munu fræðimenn víðsvegar að úr heiminum fjalla um mataræði, lífsstíl og leiðir til að forðast langvinna sjúkdóma.

Meðal fyrirlesara á Foodloose eru Gary Taubes og Aseem Malhotra. Taubes er Bandaríkjamaður sem skrifað hefur tvær bækur um kenningar sínar um orsakir offitufaraldursins. Hafa hugmyndir hans og rökfesta vakið athygli víða um heim. Malhotra er breskur hjartalæknir sem barist hefur af krafti fyrir nýjum áherslum þegar kemur að mataræði og lýðheilsu.  Aðrir fyrirlesarar eru Denise Minger, Tim Naokes, Tommy Ragnar Wood og Axel F. 
Sigurðsson.

SÍBS er einn meginstyrktaraðili Foodloose. Það endurspeglar tíðarandann að félag sem upphaflega var stofnað til að styðja við berklasjúklinga hér á landi skuli nú leggja áherslu á forvarnir og baráttuna við langvinna lífsstílssjúkdóma.

Vefsslóð ráðstefnunnar er www.foodloose.is