Mikið úrval er til af heilnæmum og ljúffengum matarolíum. En hvenær á að nota hvaða olíu? Hér eru nokkrar einfaldar upplýsingar sem geta komið að gagni.
Graskerskjarnaolía á langa hefð í austurrískri matargerð. Afar sérstakur sterkur hnetukeimur einkennir þessa olíu, sem er græn til dökkbrún á litinn. Hún er notuð bæði á salöt og í margvíslega matargerð. Hún er auðug af ómettuðum fitusýrum.
Heslihnetuolía hefur einstaklega ljúffengt milt heslihnetubragð og er einkum notuð á salöt og í salatsósur og með öðru hrámeti, en einnig í kryddlegi og sérstaklega í eftirrétti. Hún er afar auðug af einómettuðum fitusýrum.
Jarðhnetuolía bragðlítil með örlítið milt hnetubragð og má nota í salatsósur og með hrámeti, en er einkum notuð í austurlenska matargerð. Hún hefur hátt brennslumark og er því góð til steikingar og djúpsteikingar.
Línolía eða Flaxseed olía hefur þá sérstöðu í heimi jurtaolía að vera afar auðug af alfa-línólsýru (ómega 3 fitusýrum). Hún hefur mildan örlítið beiskan keim og er aðallega notuð í kaldri matargerð. Margir taka olíuna inn til að fá ómega 3 fitusýrurnar, sem við fáum annars aðallega úr lýsi og öðrum fiskolíum.
Maísolía (enska: corn oil) hefur milt en sérstakt bragð og hentar einkum með réttum úr korni alls konar.
Ólífuolía er orðin ein vinsælasta olían í matargerð á vesturhveli, ekki síst fyrir það hve ljúffeng hún er og holl. Hún hefur flesta kosti góðrar matarolíu. Hún er auðug af einómettuðum fitusýrum (um 80%) sem gerir hana einstaklega holla, veitir vernd fyrir hjartað og svo er hún talin draga úr hættu á svonefndum menningarsjúkdómum eins og sykursýki og jafnvel krabbameini. Vegna þess hve auðug hún er af einómettuðum fitusýrum, hentar hún vel til steikingar. Hún geymist ágætlega í stofuhita, þó best sé að geyma hana á köldum stað ef hún á að geymast lengi. Í kæli stífnar hún, verður eins og gruggug að sjá. Jómfrúarolífuolía er einstaklega bragðgóð, bæði ein og sér í salöt eða á soðið grænmeti með örlitlu Maldon salti eða Herbamare kryddsalti, einnig í salatsósur t.d. með Balsam-ediki, Herbamare og svörtum pipar úr kvörn.
Repjuolía (enska: canola oil) er einstaklega bragðmild og mjög hitaþolin, því góð til steikingar og djúpsteikingar. Sérstaklega er mælt með henni í kartöflurétti.
Sesamolía hefur afar mildan hnetukeim, en sé hún ristuð er bragðið mjög afgerandi og þannig er hún mikið notuð í austurlenskri matargerð, raunverulega bæði sem olía og sem krydd. Hún er auðug af náttúrulegum andoxunarefnum og geymist því mjög vel.
Sojaolía er einstaklega auðug af lesitíni, sem reyndar yfirleitt er unnið úr sojaolíu. Hún er einkum notuð í austurlenskri matargerð.
Sólblómaolía hefur mildan hnetukeim. Heppileg í salöt, með hrámeti, í snöggsteikingu og aðra eldun. Inniheldur hátt hlutfall af fjölómettuðum fitusýrum, einnig eitthvað af E-vítamíni.
Valhnetuolía hefur fínlegt hnetubragð og er notuð í salöt og með öðru hrámeti, en jafnvel meira í sæta eftirrétti, bakstur og kremfyllingar.
Þistilolía (e: safflower oil) er bragðlítil, allt að því bragðlaus. Hún hentar því vel í salöt, með hráu grænmeti, til mæjonesgerðar, snöggsteikingar og í aðra eldamennsku. Kjörin til að gera kryddolíu, t.d. hvítlauksolíu. Einstaklega auðug af fjölómettuðum fitusýrum.
Þrúgukjarnaolía er svo til bragðlaus og hentar vel til að útbúa kryddolíur og í mæjónesgerð. Einstaklega auðug af fjölómettuðum fitusýrum.