Sæl vertu.
Það er mjög gott að þú sért að fara í speglun og láta rannsaka þig vel, það er um að gera. Í þessu svari reikna ég með að þú hafir fengið þá greiningu að þú sért með bakflæði. Ef það reynist rangt þá eiga þessi ráð kannski ekki við.
Fæðan hefur mikil áhrif á meltingarfærin og oft koma svona bakflæðiseinkenni upp ef borðuð er fæða sem einstaklingur þolir illa eða hefur óþol fyrir.
Það er um að gera fyrir þig að athuga hvort það geti verið málið. Það eru ákveðnar fæðutegundir sem er algengari óþolsvaldar en önnur. Þar má nefna mjólkurvörur, hveiti, glúten, egg, ýmsan kornmat, ger og fleira. Borðar þú mikið af þessum fæðutegundum? Svo eru Kaffi, mikill sykur, áfengi og níkotin mjög ertandi og geta ýtt undir einkennin.
Stundum geta svona bakflæðiseinkenni stafað af því að líkamann vantar meiri meltingarhvata til að ná að brjóta niður fæðuna. Þá er fæðan að gutla of lengi í magasekknum og getur leitað til baka, upp á við. Þessu fylgja oft önnur einkenni eins og mikil þyngsli og þreyta eftir máltíðir og orkuleysi og kuldi í líkamanum. Ráð við þessu getur verið að passa að drekka ekki með mat, eða takmarka það mjög. Volgt sítrónuvatn á fastandi maga á morgnana getur líka hjálpað. Það er hægt að fá blöndur jurta og ensíma til að taka með máltíðunum, sem hjálpa til við niðurbrotið og geta gert gæfumuninn.
Önnur bætiefni og jurtir sem gætu hjálpað þér væru til dæmis góðgerlar fyrir meltinguna (asídófílus), regnálmur (slippery elm), aloe vera, L-glutamine amínósýran og DGL lakkrís töflur. Allt getur þetta hjálpað til að minnka ólguna og styrkja slímhúðina.
Svo eru til sérhæfðar blöndur sem vinna strax gegn brjóstsviða.
Vonandi hjálpar þetta eitthvað. Það gæti verið sniðugt fyrir þig að fá þér meiri hjálp við að reyna að finna út hvort þú hefur eitthvað fæðuóþol, oft getur verið erfitt að vesenast einn i því. Ég mundi þá ráðleggja þér að fá tíma hjá næringarþerapista.
Þú sérð bætiefnin sem ég tala um hér til hægri á síðunni.
Gangi þér allt í haginn og vonandi fer þér að líða betur.
Kær kveðja,
Inga næringarþerapisti
Copyright: tharakorn / 123RF Stock Photo