Hvernig losna ég við sykurlöngun?

27 Mar 2015

Hæ.

Hvernig losna ég við sykurlöngun og held henni niðri?

Hvað má ég búast við að vera lengi með fráhvarfseinkenni þegar að ég tek sykurinn út?

Þá er ég að meina sykur i nammi, gosi og fleiru.

Kveðja.

R

Hæ hæ.

Takk fyrir þessa spurningu, sem örugglega brennur á mjög mörgum!

Mikil sykurlöngun er algengt vandamál og hvimleitt.

Margir hafa reynt ýmislegt, háð ótal orrustur við sykurpúkann, unnið sumar en tapað öðrum. Sykurpúkinn hefur þó sínar veiku hliðar og ef þú áttar þig á því hverjar þær eru, þá eru meiri líkur á að þú náir að útrýma honum.

Besta leiðin til að ná tökum á sykurlönguninni er að koma jafnvægi á blóðsykurinn. Það er í sjálfu sér ekki mjög erfið aðgerð ef þú bara kannt tæknina og áttar þig vel á aðgerðarplaninu.

Það sem ruglar blóðsykrinum getur kallað á meiri sykurlöngun og nært sykurpúkann. Það sem hefur mestu áhrifin er auðvitað sykur, sýróp, og allt sem inniheldur slíkt.

Hvítt kornmeti, eins og hvítt hveiti, pasta, hrísgrjón og fleira er líka blóðsykursruglandi, sem og kartöflur og ávextir.

Ávextir! Nú verður þú kannski hissa!

Málið er að þeir innihalda auðvitað talsverðan sykur og ef þú ert viðkvæm þá geta þeir ruglað þig í ríminu og kallað á einhverja óhollustu. Sykur kallar á meiri sykur.

Það sem aftur á móti jafnar blóðsykur og styrkir þig í baráttunni eru prótein, fita og trefjar. Þarna eru veiku hliðar sykurpúkans, hann þolir ekki þannig matvæli.

Hér eru nokkrir punktar sem geta komið sér vel:

  • Forðastu öll einföld kolvetni (sykur) og einnig hvítt hveiti, hvít hrísgrjón, hvítt pasta og slíkt
  • Borðaðu frekar heilkorn (heilkornabrauð, heilkornapasta, híðishrísgrjón og slíkt)
  • Borðaðu mikið grænmeti
  • Farðu varlega í ávextina, þeir geta líkað ruglað blóðsykur
  • Borðaðu vel af próteini ( kjöt, fisk, fuglakjöt, egg, baunir, hnetur, fræ)
  • Passaðu að fá nóg af góðri fitu, kaldhreinsaðar olíur, hnetur og fræ
  • Borðaðu aldrei bara kolvetni , heldur reynið alltaf að blanda saman kolvetni, fitu, próteini og grænmeti í hverri máltíð. Það veldur því að blóðsykurinn verður jafnari og sykurpúkinn sofnar
  • Minnkaðu kaffidrykkju (kaffi getur haft áhrif á blóðsykur)
  • Dragðu úr stressi eins og mögulegt er (stress hefur líka áhrif á blóðsykur)
  • Hæfileg líkamsrækt, í því formi sem þér finnst skemmtileg, er mikil hjálp ef þú ætlar að ná stjórn á blóðsykrinum
  • Ýmis bætiefni geta verið gagnleg, s.s. Omega fitusýrur, sínk, króm, trefjar og fleira. Ég set inn hugmyndir hér til hægri á síðunni.

Þegar sykur er tekinn út, má búast við að líkaminn mótmæli með einhverskonar fráhvarfseinkennum, eins og þú minnist á. Það er þó auðvitað einstaklingsbundið, fer eftir því hversu mikil sykurneyslan hefur verið og ýmislegt annað skiptir líka máli. Algengast finnst mér þó, að fráhvarfseinkennin gangi yfir á nokkrum dögum, en auðvitað eru til undantekningar á því. Á meðan á því stendur er um að gera að hreyfa sig eitthvað á hverjum degi, fara út að ganga og drekka mikið vatn.

Sé ráðunum hér að ofan fylgt, þá gengur þetta yfirleitt vel og sykurpúkinn geispar golunni.

Ef það gerist ekki þá gætir þú þurft að kafa dýpra.

Gangi þér allt í haginn!

Kær kveðja,

Inga næringarþerapisti

Copyright: aboikis / 123RF Stock Photo