Er andfýla vandamál?

30 Jun 2015

Sæl Inga.

Ég er að velta fyrir mér hvort einhver bætiefni séu til sem gætu aðstoðað mig. Ég er stundum með andremmu. Veit ekki af hverju.

Ég borða allan mat í hófi, hvort sem hann er hollur eða óhollur. Tannhirða mín er mjög góð.

Einhverra hluta vegna held ég að þetta komi úr maganum á mér. Er eitthvað sem ég gæti prufað að taka inn, einhver bætiefni eða eitthvað sem gæti mögulega lagað þetta? Nú er ég enginn sérfræðingur en gæti verið að magasýrurnar séu í rugli hjá mér?

Mátt endilega ráðleggja mér.

Kv, G

Sæll vertu.

Þetta er eitthvað sem margir kannast við... og einmitt eins og þú segir þá er orsakanna stundum að leita annarsstaðar en í munninum.

Hefur þú eitthvað látið rannsaka þig með tilliti til hvort þú getir verið með einhver meltingarvandamál?

Það er einmitt þekkt staðreynd að ef að meltingin er ekki að vinna sem skildi þá getur komið fram mikil andremma. Oft er þá hálfgerð rotnunar lykt út úr viðkomandi!

Fljótlega upp úr þrítugu þá getur magasýruframleiðslan minnkað og þá er fæðan oft að gutlast of lengi í magasekknum, illa melt og með tilheyrandi ónotum. Finnur þú fyrir einhverjum óþægindum frá meltingunni? Brjóstsviða, bakfæðiseinkennum, eða einhverju öðru? Oftast fylgist það að, ef andremman stafar af þessu vandamáli. Ráð við því væri að taka inn meltingarhvata, svo kallað Betain eða HCL sem hjálpar þér þá að brjóta niður fæðuna í magasekknum. Það eru líka til blöndur meltingarhvata/ensíma sem geta hjálpað.

Einnig er ráð að taka inn svokallaða góðgerla fyrir meltinguna (asídófílus) og þá einhverja sem þola sýrubaðið í meltingarfærunum. Þeir gerlar sem þannig eru útbúnir, eru yfirleitt merktir sérstaklega sem sýru og gall þolnir eða í „Enteric coated“ hylki.

Í sumum tilfellum getur andremma stafað af því að bakteríuflóran í munninum er ekki rétt samsett. Það er einnig nokkuð algengt vandamál. Fyrir því geta verið margar ólíkar ástæður og skapast getur mikil andremma af þessum sökum. Það er hægt að kaupa sérstakar sugutöflur sem innihalda ákveðinn geril sem virkar vel á flóruna í munholinu. Þessi vara heitir Oral Flora og er frá Solaray.

Ég set hugmyndir af bætiefnum hér til hægri á síðuna.

Gangi þér vel með þetta og kær kveðja,

Inga næringarþerapisti