Hálsbólga og nefrennsli

28 Nov 2014

Góðan dag.

Ég er búinn að vera með hálsbólgu, nefrennsli og hellur fyrir eyrum nokkuð reglulega nú í haust. Hvað get ég gert til að losna við þetta.

Kær kveðja,

Þórhallur.

Sæll Þórhallur.

Það er ýmislegt hægt að gera, ekki spurning.

Þó vil ég byrja á því áður en lengra er haldið að hvetja þig til að leita læknis, ef þú hefur ekki gert það nú þegar.

Hvað varðar mataræði þá er ýmsilegt hægt að skoða þar. Sumar fæðutegundir eru frægar fyrir að vera slímaukandi og hjálpa síður en svo í svona aðstæðum. Þar má telja fyrst og fremst, mjólkurvörurnar. Einnig geta appelsínur reynst slæmar fyrir suma í svona tilfellum.

Sykur er aldrei hjálplegur, það þarf kannski ekkert að ræða það...

Það er gott að huga að próteinríku fæði og borða nóg af fersku grænmeti. Einnig að passa að fá nóg af góðri fitu úr fiski, hnetum og fræjum. Prótein og fitusýrur styðja vel við ónæmiskerfið en sykurinn hefur aftur á móti frekar neikvæð áhrif. Ónæmsikerfið þarf að vera sterkt og í jafnvægi til að tækla svona pestar og leiðindi.

Hvað varðar bætiefni og slíkt, þá er margt sem getur hjálpað.

Mörg vítamín og bætiefni geta haft þá verkun að þau efla ónæmiskerfið og einnig er til fjöldi jurta og virkra efna sem geta haft bakteríudrepandi virkni.

Hér kemur smá listi, yfir þau efni sem geta hjálpað. Tekið skal fram að þetta eru mjög almennar ráðleggingar og ekki það sama sem hentar öllum.

-C vítamín getur hjálpað. Margir hafa heyrt um áhrif C vítamíns á kvefpestir og það getur mögulega hjálpað, sérstaklega ef það er tekið inn strax við fyrstu einkenni hálsbólgu og kvefs.

-D vítamín er lykilatriði. Ef líkamann vantar D vítamín, þá er leiðin greið fyrir flensur og kvef. Það er í raun nauðsyn fyrir alla að taka inn D vítamín, sérstaklega yfir vetrartímann.

-Sólhattur eða Echinacea, hefur fyrir löngu sannað sig og fjölmargir nýta sér sólhatt til að halda sér frískum og sprækum í flensutíðinni. Það er bæði hægt að taka hann sem forvörn og eins eftir að einkenna verður vart.

-Grape Fruit Seed Extract (GSE) getur virkaða vel á svona óværu. Hægt að fá bæði dropa til að blanda í vatn og töflur. Einnig er hægt að fá mjög góðan nefúða og hálssprey.

-Ólífulauf hefur reynst mörgum ómetanleg hjálp við að halda ónæmiskerfinu í jafnvægi og heilsunni góðri árið um kring. Það fæst til dæmis mjög góð blanda frá Terranova sem inniheldur ólífulauf, ylliber og engifer.

Þetta er auðvitað engan veginn tæmandi listi, en getur gefið þér einhverjar hugmyndir.

Þú getur kíkt á listann hér hægra megin og þá sérðu hvernig þessar vörur líta út.

Gangi þér vel með þetta og vonandi nærðu heilsunni fljótt á ný.

Kær kveðja,

Inga næringarþerapisti.