Heil og sæl Sigga!
Takk fyrir að senda fyrirspurn.
Fyrst langar mig að segja að þú ert að gera mjög góða hluti og hugsar greinilega vel um heilsuna þína.
Stundum er samt eins og eitthvað trufli og tefji fyrir okkur og við uppskerum ekki eins og við sáum. Mannslíkaminn er merkileg maskína og misjafnt hvað hentar hverjum einstakling.
Bjúgsöfnun getur verið nokkuð erfitt að eiga við en ég myndi ráðleggja þér að byrja á að kíkja við hjá heimilislækninum þínum og biðja hann að athuga þetta með þér. Svo eru nokkrir þættir sem þú gætir skoðað.
Að borða hollt, getur þýtt ýmislegt og stundum getum við jafnvel verið að borða fæðu sem er guðdómlega góð en jafnvel ekki rétt samsett. Borðar þú til dæmis nóg af gæða próteini? Við konurnar erum stundum latar við það og of lítið prótein getur valdið bjúgsöfnun. Einnig vantar okkur oft góða fitu. Kíktu á úrvalið af fitusýrubætiefnum hér á síðunni og veldu þér eitthvað gott.
Svo myndi ég skoða meltinguna, er hún í lagi? Nærð þú að skila frá þér á hverju degi? Ef meltingin er eitthvað hikstandi, þá getur það valdið bjúgsöfnun. Þú gætir prófað að fá þér vinveitta meltingargerla sem fást frá mörgum framleiðendum í Heilsuhúsinu, þeir hjálpa alltaf.
Drekur þú mikið kaffi? Það getur haft slæm áhrif á vökvajafnvægið.
Svo kannski síðast en ekki síst, þá getur aukin bjúgsöfnun bent til þess að þú hafir óþol fyrir einhverri fæðu sem þú borðar. Það er mjög vel þekkt. Það getur borgað sig að skoða þetta vel og prófa að kippa út þeim fæðutegundum sem þig gæti grunað um græsku. Algengir óþolsvaldar eru mjólkurvörur, hveiti og glúten. Það er hægt að kaupa fæðuóþolspróf sem geta létt leitina, en svo getur þú auðvitað bara prófað þig áfram með þetta.
Þú getur svo hjálpað aðeins til með því að fá þér te, sem ég hef ráðlagt mörgum með góðum árangri. Það er frá Vogel og heitir Gullríste (Golden seal).
Gangi þér vel!
Inga næringarþerapisti