Sykurlöngun eftir mat

05 May 2015

Sæl Inga

Er eðlilegt að langa oftast í eitthvað eftir mat? Þá helst eitthvað sætt... er verri eftir fiskmáltíð.

Hvað er til ráða?

Kveðja

Þ

Sæl vertu.

Nei það er nú kannski ekki eðlilegt en hefur þó oftast sínar eðlilegu skýringar.

Í fyrsta lagi stafar þessi löngun oft af vana.

Mörgum finnst eðlilegt að fá sér sætan eftirrétt  og hafa vanist því frá barnæsku. Það þarf því oft átak til að brjóta slík munstur og breyta venjunum. Þú gætir prófað heilsusamlega eftirrétti sem innihalda ekki viðbættan sykur, eins og fersk ber, bökuð epli eða eitthvað í þá veruna. Nú ef það hjálpar ekki og sykrulöngunin er enn til staðar þá dugar ekkert nema beita sig hörðu og hætta að borða eftirrétt!

Það tekur styttri tíma en þig grunar að venja sig af því. Gott ráð er að bursta tennur strax eftir máltíð, það dregur oft úr lönguninni.

Í öðru lagi getur sykurlöngun stafað af óreglu í blóðsykri sem skapast oft vegna lélegs mataræðis. Þú minnist ekkert á hvernig mataræðið þitt er samsett, en ef það einkennist af miklu af kolvetnum, hveiti, kornmeti, kökum, sælgæti og slíku þá gæti skýringin legið þar. Ráðið væri þá að kippa mataræðinu í lag, auka neyslu á grænmeti, góðum próteingjöfum og bæta réttu fitunni inn. Borða hnetur, fræ og kaldhreinsaðar gæða olíur. Ef jafnvægi kemst á blóðsykurinn, þá er björninn oft unnin.

Í þriðja lagi getur þetta verið lífeðlisfræðilegt vandamál. Eitt sem getur aukið löngun í sykur er  vöntun á taugaboðefni sem við köllum serotonin og virkar sem eins konar hamingjubomba. Þegar sykurs er neytt þá eykst losun á serotonin og fólki líður eins og það sé glaðara og hamingjusamara. Þeir sem eiga við þetta vandamál eru þá oft að nota sykur til að reyna að peppa sig upp, en auðvitað kemur það svo oftast í bakið á þeim stuttu seinna.

Í fjórða lagi getur þetta tengst meltingunni þinni, en hún getur lent í vandræðum með að brjóta niður fæðuna sem borðuð hefur verið. Það getur verið vegna skorts á meltingarensímum og hvötum.  Líkaminn kallar þá enn á orkuna sem á að fylgja máltíðinni, en sökum lélegs niðurbrots þá gengur verkið illa og hann kallar á sykur til að halda sér gangandi og vakandi. Þetta tengist mjög oft hækkuðum aldri og ef þú ert eldri en 40 ára þá væri ráð að prófa að taka inn meltingarensím til að hjálpa til við niðurbrot fæðunnar. Önnur einkenni sem geta fylgt þessu vandamáli eru þyngsli og ónot í meltingu, þreyta eftir máltíðir, uppþembur, vindgangur og fleira. Þú getur fengið meltingarensím í Heilsuhúsinu og ég set inn myndir af hugmyndum, hér til hægri á síðunni. Ensímin tekur þú þá inn með máltíðum.

Vonandi getur þú nýtt þér þessi ráð og gangi þér vel.

Kær kveðja,

Inga næringarþerapisti.

Copyright: jayfish / 123RF Stock Photo