Sæl L.
Takk fyrir spurninguna.
Þegar sveppasýking kemur fram á húð þá eru miklar líkur á að hana sé finna annarsstaðar í líkamanum og þá helst í meltingarvegi.
Hvort það er Candida albicans sveppurinn eða einhver annar, þá gilda sömu meðferðarúrræði.
Það er flott hjá þér að taka út sykurinn og helst þyrftu hveitið og gerið að fara sömu leið. Allt er þetta fæða sem getur ýtt undir svona vandamál.
Enn fremur væri æskilegt að taka út ávexti, allavega tímabundið.
Allt hitt sem þú ert að gera getur hjálpað, engin spurning.
Ef þú lendir í vandræðum með að breyta mataræðinu, þá legg ég til að þú bókir þér tíma hjá næringarþerapista eða öðrum sem þekkir vandamálið og fáir aðstoð við það.
En þú spyrð um bætiefni.
Það er ýmislegt til sem getur hjálpað.
Í fyrsta lagi er ráð að taka inn vinveitta meltingargerla (asídófílus).
Mannslíkaminn þarf nauðsynlega á því að halda að hafa þarmaflóruna rétt samsetta og hver fullorðinn einstaklingur hefur í meltingunni allt að 2 kíló (já ég meina kíló) af gerlum.
Það er því eins gott að þeir séu af réttu tegundunum!
Þarmaflóran er viðkvæmt fyrirbæri og jafnvægi hennar getur auðveldlega raskast.
Mörg lyf, þar með talin sýklalyf, mikil kaffidrykkja, streita og álag, áfengisneysla, slæmt mataræði og fleira geta haft mjög slæm áhrif á þarmaflóruna.
Ef ójafnvægi skapast þá er hættan sú að bakteríur eða sveppir sem eru til staðar, en eiga að vera í litlu magni, fjölga sér úr hófi og fara að hafa slæm áhrif á heilsuna.
Það að taka inn vinveitta gerla í bætiefnaformi getur hjálpað þér að koma þarmaflórunni í lag.
Það eru til ákveðnar jurtir og efni sem geta aðstoðað við að drepa niður sveppasýkinguna.
GSE (grape fruit seed extract), oil of oregano og hvítlaukur eru jurtaefni sem eru þekkt fyrir að geta hjálpað og ýmsar blöndur og útgáfur eru til.
Einnig eru til sérstök ensím sem virka oft vel.
Ég set hugmyndir á síðuna hér til hægri.
Svona sýkingar geta verið nokkuð erfiðar við að eiga, en með réttu mataræði og hjálparefnum þá gengur það yfirleitt vel.
Það getur þó tekið sinn tíma.
Vertu því staðföst í þessu og þolinmóð, þá kemur þetta allt og þú vonandi uppskerð miklu betri heilsu.
Gangi þér vel!
Inga næringarþerapisti
Copyright: akz / 123RF Stock Photo