2ja ára með hægðavandamál

26 May 2015

Sæl.

Ég er með einn 2 og 1/2 árs sem á mjög erfitt með hægðir og búinn að vera þannig í um það bil ár meira og minna.

Mig langar svo að vita hverju þú mælir með?

Kveðja, S

Sæl S.

Takk fyrir spurninguna.

Það er margt sem getur skipt máli þegar kemur að svona einkennum og fyrst og fremst er gott að skoða mataræði barnsins.

Ég velti fyrir mér hvort það sé fleira að hrjá hann? Er hann með exem eða astma, fær hann oft kvef hósta eða nefrennsli, var hann eyrnabólgu eða kveisubarn?

Þessi einkenni, ásamt hægðavandamálum, tengjast oft og geta borið vott um einhverskonar fæðuóþol. En hvaða fæða gæti það verið? Jú ég myndi byrja að skoða mjólkurvörurnar. Ef þú kannast við eitthvað af þessum einkennum og hann borðar mikið af mjólkurvörum þá myndi ég ráðleggja þér að prófa að sleppa þeim og sjá hvað gerist.

Það getur einnig verið önnur fæða sem ýtir undir þetta og ef hann er að borða mjög einhæft fæði þá getur það útskýrt eitthvað. Borðar hann allan mat? Líka ávexti og grænmeti? Fjölbreytnin er lykilatriði og að hann fái líka örugglega nóg af trefjum og vökva. 

Svo er það spurning hvort hann hefur einhvern tíman þurft að taka inn sýklalyf. Ef svo er, þá raskast viðkvæm flóra meltingarvegarins mikið, góðu meltingargerlunum fækkar  og það getur verið mannslíkamanum erfitt að vinna upp góða þarmaflóru. Þá fara gjarnan að koma fram ýmis meltingartengd vandamál.

Ég myndi ráðleggja þér að gefa honum í bætiefnaformi góðgerla fyrir meltinguna. Einnig þó að hann hafi ekki þurft að nota sýklalyf, þessir gerlar geta alltaf hjálpað. Kíktu hér til hægri á síðuna, þar getur þú séð hvaða bætiefni gætu hentað honum. Einnig er hægt að fá trefjar og létt hægðalosandi bætiefni fyrir börn.

Svo er mikilvægt að hann fái góða fitu sem er rík af omega fitusýrum. Tekur hann lýsi? Ef hann gerir það þá myndi ég ráðleggja þér að taka hlé frá því og prófa aðra olíu. Nú tala ég bara út frá reynslu minni í starfi, það hafa ekki verið gerðar rannsóknir á þessu, en það virðist vera mjög algengt að lýsi valdi hægðatregðu hjá börnum á leikskólaaldri. Ég hef ekki hugmynd um hvernig stendur á þessu, mjög einkennilegt vægast sagt.  Ég endurtek að ég hef ekkert fyrir mér í þessu nema reynsluna, en að mínu mati er þetta ráð sem vert er að prófa.

Þú gætir frekar gefið honum Efalex olíu, hörfræolíu eða hempolíu.

Svo er um að gera að leita læknis ef þetta ætlar ekki að lagast og gott að hafa í huga að hægðavandamál tengjast mjög oft tilfinningalífinu sterkum böndum. Það er auðvitað erfitt að ráðleggja varðandi þetta þegar ég veit svona lítið um lita drenginn þinn, en ég svona impra bara á þessu og þú metur sjálf hvort þetta eigi við einhver rök að styðjast.

Gangi ykkur allt í haginn!

Kær kveðja,

Inga næringarþerapisti

2 fyrir 1

Biona Hempfræjar olía

1.522 kr