Gyða Dís Þórarinsdóttir kennir jóga nánast alla vikuna í Studío Shree Yoga í Versölum í Kópavogi, við Salalaugina. Þar fær hún allt frá ungum krökkum upp í ellilífeyrisþega til sín í jóga. Aldurinn er afstæður, eldri borgarar ná t.d. að gera ótrúlegustu jógastöður, meðal annars höfuðstöðuna.
„Jóga snýst ekki bara um að rækta líkamann, að styrkja hann og byggja upp, heldur ekki síður um hugarró. Það að ná að hemja hugann og ná innri frið, leita inn í kjarnann sinn og núllstilla sig er það sem við þurfum meira og meira á að halda í okkar daglega lífi, líka fyrir utan jógasalinn.
En þó svo ekki sé nema í þann tíma sem jógatím-inn stendur yfir þá er það gott,“ segir Gyða.
Nú þegar líður að sumri fer hún að hugsa sér til hreyfings, því hún nýtur þess að stunda jóga úti í náttúrunni.
„Það er alveg frábært að stunda jóga úti undir berum himni, ég kalla það skógarjóga. Að vera út í náttúrunni er guðdómlegt. Við hittumst á sunnudagsmorgnum á flötinni fyrir aftan gamla Gufunesbæinn og eigum frábæra stund. Svo hef ég verið með heilsu- og jógaferðir út á land, fer tvær ferðir í Bjarnarfjörð á Ströndum í haust. Það er mögnuð upplifun að fara í fjóra daga og ná jarðtengingu, rækta huga, líkama og sál. Við stundum jóga nokkrum sinnum á dag og svo höfum við aðgang að náttúrulaug allan sólarhringinn þar sem ég býð uppá flot og slökun. Fólk þarf ekki að hafa neinn grunn til að koma með í þessar ferðir, þetta er fyrir alla, við aðlögum æfingarnar að fólkinu. Það er sko óhætt að fullyrða það koma allir endurnærðir til baka.“
En það er ekki bara hér á klak-anum sem hún stundar jóga því hún býður upp á frábærar jógaferðir til Ibiza.
„Við fórum í vikuferð til Ibiza í vor, jóga- og heilsuferð. Þar eru allir saman í stórri villu og njóta þess að gera jóga þrisvar á dag. T.d. gerum við jóga við sólarupprás og finnum hversu dásamlegt það er að finna daginn vakna og hitann rísa. Næsta vor verða tvær ferðir, í lok apríl og byrjun maí og það komast bara 18 manns í hverja ferð. Við erum með prógram annan hvern dag, eins og hjólaferð þar sem farið er með leiðsögumanni um sveitina og þorpin – alveg ógleymanleg reynsla. Sólarlagsgönguferð er líka á dagskrá og svo verð ég að nefna sjójóga. Þá förum við út á róðrabrettum og gerum jóga út á brettunum, sem er alveg mögnuð upplifun. Margir halda að á Ibiza sé bara froðudiskó en svo er aldeilis ekki. Eyjan er dásamleg, full af litlum víkum með ströndum og allt er hreint og fallegt. Maður er í beinni tengingu við náttúruna á Ibiza,“ segir Gyða að lokum. Minnir svolítið á Ísland sem er eyja en þó töluvert heitara loftslag.
Nánari upplýsingar um Gyðu Dís, jógastúdíóið og jógaferðirnar er að finna shree-yoga.is. Einnig er hægt að senda henni tölvupóst á netfangið gydadis@shreeyoga.is.
Gyða Dís Þórarinsdóttir, jógakennari