Óteljandi möguleikar með Lavenderolíu

21 Oct 2014

Lavenderolía er til margra hluta nytsamleg. Hér eru nokkrar aðferðir til þess að nýta hana fyrir bæði heimilið og þig.

Fyrir húsverkin
Fyrir hreinan og ilmandi þvott er tilvalið að setja eina teskeið af Lavenderolíu út í hálfan líter af ediki og hrista duglega. Gætið þess að merkja flöskuna og að þetta er aðeins ætlað til þvottar. Edikið er afar gott hreinsiefni, sótthreinsandi og frískandi að auki. Lavenderolían gefur þvottinum góðan ilm og veitir vörn gegn bakteríum og sveppamyndun. Til þess að þrífa gólfin og fá góða angan má bæta þessari blöndu í vatn og renna yfir gólfin. Það eru þrif sem eru bæði góð fyrir heimilið sem og umhverfið. Það gerist ekki betra.

Fyrir heimilið
Bættu nokkrum dropum af Lavenderolíu út í úðabrúsa með hreinu vatni. Úðaðu blöndunni létt yfir rúmfötin því það gefur ferskan ilm og góðan svefn. Tilvalið er að hafa brúsann við hendina ef losna þarf við óæskilega lykt. Það besta er að ilmurinn af Lavenderolíunni er afskaplega mildur og róandi og veitir almenna vellíðan. Prófaðu bara.

Fyrir þig
Lavenderolían er til svo ótrúlega margra hluta nytsamleg. Hún er til að mynda frábær í baðið jafnt sem fótabaðið, enda hamlar hún afskaplega mikið sveppamyndun. Sumir sem glíma við kvíða setja dropa aftan við eyrun þegar kvíðatilfinningar gera vart við sig því þessi kjarnmikla olía er svo einstaklega róandi. Svo er gott að þynna hana í vatni og nudda á gagnaugun ef höfuðverkur gerir vart við sig. Það eru fjölmargar fleiri leiðir til þess að nýta Lavenderolíuna sér til heilsubótar og vellíðunar. Það mikilvægasta er að taka fyrsta skrefið og byrja rólega að njóta ávinningsins.