Ilmkjarnaolíur – Fyrir fæðingu og í bossaþurrkur

07 May 2015

Hvað eru Ilmkjarnaolíur?
Ilmkjarnaolíur eru sterkar olíur sem oftast nær eru búnar til með eimingu úr rótum, blöðum, blómum og trjákvoðu plantna. Þær eru 75-100 sinnum sterkari en te.

Það fer eftir því úr hvaða jurt olían er, hvaða virkni hún hefur. Ilmkjarnaolíur hafa verið notaðar af mannkyni í lækningaskyni langt aftur í aldir. Vitneskjan um hvernig þær eru notaðar hefur byggt á reynslu kynslóðanna, en vísindamenn eru aðeins byrjaðir að gera tilraunir til að skoða áhrif þeirra. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á olíunum benda til þess að þær geti á ýmsan máta haft jákvæð áhrif á heilsufar. Til dæmis geti þær gagnast gegn sýkingum, dregið úr sársauka, kvíða og þunglyndi, hamlað vexti æxla, dregið úr einkennum fyrirtíðarspennu, minnkað ógleði og fleira.

Í nútímaiðnaði eru ilmkjarnaolíur notaðar í ilmvötn, snyrtivörur, sápur, reykelsi og hreingerningarvörur. Stundum eru þær notaðar sem bragðefni í matvæli en þá yfirleitt í mjög smáum skömmtum. (Ilmkjarnaolíur sem fást á Íslandi eru aðeins til útvortis notkunar, bragðdropar í matvæli eru seldir sér). Ilmkjarnaolíur eru mjög sterkar því þarf að passa að þær berist ekki í augu. Það getur beinlínis verið hættulegt að taka ilmkjarnaolíur inn í óþynntu formi og því skyldi geyma þær þar sem börn ná ekki til. 

Ilmkjarnaolíur fyrir fæðingu
Þegar beðið er eftir fæðingu barns virðist tíminn stundum ansi lengi að líða. Þegar biðin lengist framyfir settan tíma er ekki ólíklegt að hver dagur verði sem heil vika. Þá leitar fólk gjarnan ráða til að koma fæðingu af stað. Stundum standa konur frammi fyrir því að verða settar af stað á spítala ef barnið kemur ekki innan ákveðins tíma og þá er ekki úr vegi að prufa léttari náttúrulegar leiðir til að sjá hvort hjálpa megi til í þessu viðkvæma ferli. Tvær ilmkjarnaolíur eru sérstaklega notaðar í slíkum tilvikum. Setja má nokkra dropa út í baðið eða á koddann, setja nokkra dropa í ilmdreifara, blanda í vatn og spreyja í loftið eða setja einn eða tvo dropa í olíu og nudda á líkamann. 

Lavender (ísl. Lofnarblóm) – Lavender olían er þekkt fyrir slakandi eiginleika sína. Hún er helsta ilmkjarnaolían sem notuð er til að hvetja til fæðingar. Best er að nota engar ilmkjarnaolíur fyrstu þrjá mánuði meðgöngu en Lavender má nota síðustu sex mánuði meðgöngunnar. 
Jasmín (ens. Jasmine) – Jasmine olían getur hjálpað til við að auka hríðar. Hana skyldi alls ekki nota fyrr á meðgöngunni þar sem hún getur komið fæðingu af stað of snemma og ekki er ráðlagt að nota hana á meðan á brjóstagjöf stendur. 
Konur upplifa oft mikla ógleði í fæðingarferlinu. Þar kemur Piparmyntuolían (ens. Peppermint) sterk inn. Þá er hægt að setja 2-3 dropa á pappír eða vasaklút og bera svo að vitunum þegar ógleðin hellist yfir eða setja nokkra dropa í skál með vatni við rúmstokkinn. (Piparmyntuolíuna skyldi ekki nota á á meðan að á bróstagjöf stendur þar sem að hún getur dregið úr mjólkurflæði.) 

 

Ilmkjarnaolíur í heimagerðar bossaþurrkur
Ilmkjarnaolíur er gott að nota í heimatilbúnar blautþurrkur. Þá er gott að sjóða vatn, hella því í hentugt ílát, láta það kólna aðeins og bæta ef til vill út í það smáveigis kókósolíu og e-vítamíni (fjótandi eða opna hylki). Eftir þriggja mánaða aldurinn er gott að bæta einum eða tveimur dropum af Lavenderolíu útí. Lavender ilmar vel og virkar slakandi. Eftir að barnið nær sex mánaða aldri má bæði nota Appelsínuolíuna (ens. Orange) eða Lavender, Appelsínan virkar hressandi. Svo er grisjum eða saumuðum taustykkjum bætt út í vatnsblönduna og ílátinu svo lokað. Þá eru komnar heimatilbúnar þurrkur sem kosta minna en flestar keyptar og eru lausar við skaðleg aukaefni. (Þó mætti taka fram að plastílát geta innihaldið hormónabreytandi efni og að ekki er ráðlegt að kæla sjóðandi vatn í þeim, skárra er að bæta því í ílátið eftir að vatnið er kólnað).  Þessar blautþurrkur eru góðar á bossa barnsins, á klístraða putta eftir máltíðir og einnig fyrir aðra fjölskyldumeðlimi eftir þörfum, til dæmis eru þær hentugar til þess að fjarlægja farða af andlitinu. 

Gréta Ósk Óskarsdóttir

Heimildir: 

1. Á vefsíðu háskólans í Minnesota má finna lista yfir nokkrar rannsóknir sem gerðar hafa verið á ilmkjarnaolíum:  http://www.takingcharge.csh.umn.edu/explore-healing-practices/aromatherapy/what-does-research-say-about-essential-oils

2.  Lesa má betur um ilmkjarnaolíur til að koma fæðingu af stað á vefsíðunni Better Childbirth Outcomes: http://www.better-childbirth-outcomes.com/natural-induction.html Lesa má meira um hvaða ilmkjarnaolíur eru öruggar fyrir börn og á hvaða aldri á vefsíðunni The Hippy Homemaker: http://www.thehippyhomemaker.com/essential-oil-safety-babies-children/ Upplýsingar um hvaða ilmkjarnaolíur skyldi forðast á meðgöngu og á meðan á brjóstagjöf stendur má finna á bloggi Salvenatuals: http://salvenaturals.com/blog/?p=100
3.  Lesa má um notkun piparmyntu við ógleði í greinninni „The Use of Essential Oil Therapy for Treatment of Post Operative Nausea and Vomiting“  http://soothing-scents.com/media/Medical_Use_of_Essential_Oils.pdf

4.  Lesa má um skaðsemi plasts á síðu samtaka gegn brjóstakrabbameini: http://www.breastcancer.org/risk/factors/plastic og í grein í tímaritinu Time: http://healthland.time.com/2011/10/24/bpa-exposure-in-pregnancy-may-affect-behavior-in-girls/