Slen og þreyta

25 Nov 2015

Heilsufar einstkalinga byggist á mótstöðuhæfni þeirra gegn álagi. Ónæmiskerfið sér um að verja fólk gegn sjúkdómum og halda skaðlegum örverum í skefjum. En hversu vel sem ónæmiskerfið starfar, þá getur sú starfsemi raskast ef of mikið er á það lagt. Má þar m.a. nefna umhverfismengun, einhæft eða óhollt fæði, reykingar og ofnotkun áfengis, einnig streitu, skort á hreyfingu og ófullnægandi svefn. 

Hreyfing
Þeir sem stunda skrifstofustörf eða aðra vinnu innandyra sem ekki reynir á líkamann, ættu sérstaklega að huga að aukinni hreyfingu. Göngutúrar, skokk, hjólreiðar, sund og önnur útivist með hæfilegri hreyfingu er mjög af hinu góða, því þar fer saman líkamsþjálfun og streitulosun. Fyrir þá sem burðast með óþarfa kíló utan á skrokknum er þetta jafnframt liður í því að losa sig við umframþunga. 


Hollur matur 
Til að okkur líði vel þurfum við að muna eftir að sinna líkamlegum þörfum okkar, því líkaminn er ekki ósvipaður vél að því leyti að um hann þarf að hirða og færa honum það sem hann þarf til að “ganga” snurðulaust. Starfsemi líkamans er auðvitað miklu margbrotnari og flóknari en gangur vélar og þarf hann afar fjölbreytt næringarefni til að “ganga án truflana”. Við getum vanrækt hann um tíma, jafnvel misboðið honum með miður hollu fæði, en ef við gerum það til langframa er hætt við þreytu og sleni og að eitthvað gefi sig með tímanum. Tryggjum líkama okkar það sem hann þarf. Drögum úr neyslu á harðri fitu og sykri. Hollur matur er góður. Fiskur, grænmeti, kornmatur og ávextir er hráefni í óendanlega sælkerarétti. 


Fjölvítamín 
Nauðsynlegt er að taka nægilegt magn af vítamínum, steinefnum og snefilefnum þar sem þau hafa afgerandi áhrif á öll mikilvæg efnaskiptaferli líkamans. C, E og A-vítamín gegna mikilvægu hlutverki við að verja líkamann fyrir ákveðnum sjúkdómum. Mikilvægi steinefna og snefilefna er einnig afar mikið fyrir heilbrigða starfsemi líkamans. Þeirra hlutverk er m.a. að örva, hjálpa eða stjórna hinu lífræna efnaskiptaferli mannsins. 


Ginseng 
Hámarkseinbeitni krefst innra jafnvægis og einnig líkamlegs og andlegs þróttar. Ginseng eflir þessa þætti. Ginseng eykur viðbragðsflýti og eflir kraft til að standast álag tímabundinnar streitu og mikillar líkamlegrar áreynslu. Það eykur afköstin. Eftir erfiðar íþróttaiðkanir eða krefjandi starf flýtir Ginseng fyrir endurheimtingu þreks. Þessi jurt hentar ungum sem öldnum, konum og körlum. Hún gagnast nemanda í stærðfræðiprófi og íþróttamanni við þjálfun jafnt sem húsmóður við dagleg störf. Vegna jákvæðra áhrifa á starfsemi hinna ýmsu líffæra verkar Ginseng á allan líkamann. Þannig eykur Ginseng viðnámsþrótt líkamans og hjálpar honum að ná sér eftir ofþreytu og standast betur álag og streitu. Rannsóknir benda til þess að neysla þess auki súrefnisflutning blóðsins til frumanna, t.d. staðfesti svissnesk rannsókn á toppþjálfuðum íþróttamönnum að súrefnisnýting jókst verulega við neyslu ginsengs. 


Royal Jelly 
Royal Jelly eða drottningarhunang eins og það er nefnt á íslensku, er ekki hunang heldur hvítur seigfljótandi safi með stórmerkilegum eiginleikum. Þegar býflugurnar vantar nýja drottningu, taka þær lirfu venjulegrar býþernu sem lifir í rúman mánuð og fæða hana eingöngu á Royal Jelly. Við það breytist hún í drottningu og lifir í allt að 5 ár! Hún sér um að viðhalda stofninum í býkúpunni og verpir um 2000 eggjum (sem svarar til eigin þyngdar hennar) daglega allt sumarið. Royal Jelly er tvímælalaust eitthvert öflugasta næringarefni sem þekkt er og telja margir út frá náttúrulegu hlutverki þess, að það hafi einnig jákvæð áhrif á hormónastarfsemi fólks. Það er notað með góðum árangri til að auka þrek og viðhalda heilbrigði. 


Q-10 
Q-10 er í hverri einustu frumu líkamans og gegnir mikilvægu hlutverki við að umbreyta þeirri næringu sem til frumunnar berst í orku. Auk þess er það öflugt andoxuanrefni (vörn fyrir frumurnar gegn skaðlegum áhrifum úrgangsefna og alls kyns utanaðkomandi efna sem valda frumunum tjóni). Dr. Emile Bliznakov, yfirmaður á Lupus Research Institute í Ridgefield, Ct., hefur með tilraunum sýnt að aldur kvenkyns músa lengist verulega fái þær Q-10 á efri árum. Greinilegur var einnig aukinn þróttur, meiri hreyfing og fallegri feldur. Rannsóknir ítalskra vísindamanna á íþróttafólki sýna að magn Q-10 í blóði minnkar á keppnistímabili, en halda má í horfinu með því að taka Q-10 aukalega. Þá batnar líka súrefnisnýting (aukið þrek), blóðþrýstingur helst lægri og mjólkursýruúrfelling (þreyta) minnkar. Þreyta og magnleysi geta verið merki um skort á Q-10. Eins og með vítamín og önnur bætiefni eru áhrifin best þar sem skorturinn er mestur. Því gæti verið hyggilegt að nota Q-10 reglulega bæði til að viðhalda heilsu og þreki, styrkja viðnámsþrótt líkamans og stuðla að því að geta glaðst langra lífdaga. 


Ætihvönn 
Íslenska ætihvönnin á sér merka sögu og hefð að baki. Hvönnin var einkum talin góð fyrir þá sem voru að ná sér eftir erfið veikindi, til að auka þrek og kraft. Áhrif jurtaveigar úr ætihvannafræum á 15 sjálfboðaliða voru könnuð árið 2001 og var reynsla þessara sjálfboðaliða mjög í samræmi við þau áhrif sem lýst er í lækningajurtabókum, aukinn kraftur og vellíðan auk jákvæðra áhrifa á maga og meltingu. Þessi jurtaveig er notuð til að auka starfsþrek, fyrirbyggja umgangspestir og auka vellíðan. Einnig gagnast hún til að ná upp þreki og heilsu eftir veikindi. 


Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.