Undanfarin ár hafa verið áhugaverð fyrir margar sakir í heimi læknisfræðinnar, kannski þó sérstaklega hvað varðar mataræði og leiðbeiningar hér um. Það má segja að á nánast hverjum degi komi fram nýjar upplýsingar um það hvað og hvernig við eigum að borða. Við erum vön því að heyra um ýmsa matarkúra, iðulega í því skyni að grenna sig og halda sér ungum eða ná árangri í íþróttum svo dæmi séu tekin.
Þar sem það ríkir náttúrúleg tregða í kerfi sem er eins íhaldssamt og varfærið og læknisfræðin hafa læknar ekki mikið verið í forgrunni umræðunnar í tengslum við mat og mataræði. Það hefur sannarlega breyst og læknisfræðin er farin að viðurkenna í meira mæli en hún gerði áður hversu mikilvægt það er að horfa á mataræði í tengslum við sjúkdóma. Við höfum auðvitað líka þurft rannsóknir til að undirbyggja þær leiðbeiningar sem settar eru fram í samráði við aðrar stéttir og það skýrir að vissu leyti líka hvers vegna opinberar ráðleggingar breytast ekki svo hratt, menn vilja vera vissir í sinni sök.
Þrátt fyrir allt þetta hefur verið mikil umræða á undanförnum misserum meðal almennings, fagfólks og ekki síst lækna að þær leiðbeiningar sem við höfum fylgt um árabil séu mögulega ekki nægjanlegar, sérstaklega hvað varðar ákveðna hópa sjúklinga og forstig þeirra sjúkdóma sem við í daglegu tali köllum lífsstílssjúkdóma. Undir þá falla sykursýki, hjarta og æðasjúkdómar og offita, með afleiðingum hennar á efnaskipti og stoðkerfi, svo einhverjir séu nefndir.
Hluti af þessari umræðu hefur beinst að því að við eigum ekki að vera eins hrædd við fitu og við höfum verið alin upp við. Sykur sé meira vandamál núorðið og þá sérstaklega hinn viðbætti og duldi í þeim vörum sem við neytum flest reglulega. Lágkolvetnamataræði hefur hafið innreið sína, líka í læknisfræðinni að vissu leyti og veruleg umræða skapast, og þá líka hvort við eigum ekki möguleika á að snúa við sjúkdómsmyndun eða hið minnsta halda þeim betur í skefjum en áður. Þetta er mjög flókin umræða og ekki eru öll kurl komin til grafar, svo mikið er víst.
Nýjasta útspilið er svo að prótein, sem er uppistaðan í slíku fæði og orkugjafinn að stærstum hluta í dýraafurðum svosem kjöti og fiski auk mjólkurvara, hafi viðlíka slæm áhrif og sykur og ýti í sama mæli undir offitu. Vísindamenn í Adelaide í Ástralíu leggja fram kenningar um það að dýraprótein vinnist hægar í líkamanum heldur en hinir orkugjafarnir, fita og kolvetni. Þess vegna séum við að safna á okkur aukakílóum með próteináti og mælast til þess að draga úr því. Þá eru aðrir sem hafa sýnt fram á aukna dánartíðni í tengslum við neyslu dýrapróteina. Það gengur þvert gegn þeim ráðum sem hafa verið að koma fram á allra síðustu árum í tengslum við paleo- og lágkolvetnamataræði svo það er ekki von að þorri almennings verði ruglaður af þessu öllu saman.
Ljóst er í mínum huga að hægt er að ná mjög góðum árangri í baráttunni við lífsstílssjúkdómana með hófinu einu saman; það skipti mögulega ekki svo miklu hvað maður borðar, ætli magnið af hverju fyrir sig skipti ekki meira máli - til viðbótar við fjölmargar aðrar breytur sem er erfitt að mæla. Til dæmis það að gefa sér tíma til að borða og njóta matar með fjölskyldu og vinum er líklega ein hollasta iðja sem hægt er að hugsa sér, hlægja dátt í því samhengi er líklega enn betra og streitulosandi til viðbótar. Við vitum að streita á margvíslegan máta hefur áhrif á efnaskiptin okkar og allt sem við getum gert til að draga úr streitu er jákvætt. Sennilega er rétt að draga eitthvað úr neyslu rauðs kjöts sérstaklega og bæta við plöntuafurðum líkt og baunum eða þess háttar, neyta reglulega fiskmetis, elda sjálfur og notast við sem hreinastar afurðir, drekka áfengi í hófi og reykja ekki, fyrir utan það að fá reglulega hreyfingu.
Það má svosem taka fyrir einstaka tegundir fæðu eða orkugjafa og boða hina einu sönnu lausn. Líklega er það þó ansi langsótt að ef maður skrúfar á einum stað í jafn flóknu verki sem líkaminn er þá lagist allt, sennilega gleymist þá eitthvað annað í staðinn. Það getur líka verið ansi streituvaldandi að hugsa alltaf um það hvað maður borðar og misstígi sig þar með ekki. Ætli meiri þekking á næringu og samsetningu hennar væri ekki mjög skynsamleg nálgun, þar með að kunna með hana að fara og elda frá grunni, þá fær maður meiri tilfinningu fyrir því sem maður setur ofan í sig. Samkvæmt öðrum rannsóknum er nefnilega fylgni á milli þess að vera í efnaskiptavanda og ofþyngd á þann máta að þeir sem elda sjálfir eða fá slíkan mat eiga síður á hættu á lífsstílssjúkdómum.
Þetta er svona í grunninn uppskriftin að hollari lífsháttum og það hefur ekki breyst mikið á síðustu áratugum í raun, jafnvægi, meðalhóf og andleg sem líkamleg vellíðan er lykillinn sem allir eru að leita að.