Sagan af handstöðuævintýrinu
Gyða Þórdís Þórarinsdóttir, eða Gyða Dís jógakennari eins og hún er þekkt, hefur slegið í gegn með frábæra jógatíma og fyrir stuttu fór hún út í svokallað handstöðuævintýri.
Hver er þín uppáhalds jógastaða til að styrkja hendur og efri líkama?
„Ég vakna alla morgna fyrir klukkan sex, það er minn tími því langsamlega best er að stunda og gera jóga á fastandi maga. Ég hef einnig mjög gaman af krefjandi jógastöðum og nú nýverið kláraði ég handstöðuáskorun sem tók 365 daga og vakti talsverða athygli - og ég fann að þetta ýtti við mörgum til að byrja sína áskorun, hvort sem var handstaða eða eitthvað annað. Það er gott og kærleiksríkt að geta gefið af sér og fundið að maður hreyfir við fólki.
Hver er sagan af handstöðuævintýrinu?
„Ég elska að fara í viðsnúnar stöður, fara út fyrir þægindarammann og finna hvað líkaminn er magnaður og sterkur - og hvað þú getur þjálfað þig þrátt fyrir að vera orðin fimmtug. Þú getur með æfingunni, smátt og smátt þjálfað þig t.d. upp í höfuðstöðuna, herðastöðuna og svo handstöðuna.“
„Handstöðuævintýrið mitt hófst í september árið 2014. Handstaðan er ein af erfiðu jógastöðunum og þegar ég rakst á áskorun erlendis sem fólst í því að gera eina handstöðu á dag í 365 daga langaði mig að taka þátt og dreifa boðskapnum. Ég birti daglega myndir af handstöðunum undir merkinu #handstada365 á Instagram og Facebook og viðtökurnar voru fyrst og fremst skemmtilegar. Með því að gera handstöðu daglega styrkir þú kviðvöðvana, úlnliði, handleggi og hryggsúluna. Þú róar einnig hugann, blóðflæði til höfuðs eykst og orkan eykst til muna. Aukið blóðflæði er líka eins og náttúrulegt bótox þar sem gott blóðflæði hægir á öldrun.“
Það er því um að gera að prófa, en Gyða Dís segir að það sé mikilvægt að fara rólega af stað. „Leggðu lófana í gólfið upp við vegg og fáðu tilfinninguna, svo kemur að því að þú nærð að sparka öðrum fætinum upp, lengra og lengra.“
„Í jóga lærum við einnig að elska okkur nákvæmlega eins og við erum, aldrei að dæma né skilgreina. Reynum að upplifa augnablikið og vera í stundinni hér og nú. Þar sem fortíðin er horfin og framtíðin ekki komin. Þetta reynist mörgum okkar erfitt. Sá sem nær að lifa í núinu er blessaður.“