Hvernig fyllum við líkamann af orku?

02 Jun 2017

Heilsufréttir hafði samband við Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur 24 ára atvinnukylfing úr GR til að forvitnast um hvernig hún hagar mataræði sínu fyrir og á meðan átökum stendur.

 

Ólafía Þórunn er fyrsti Íslendingurinn sem hlýtur fullan keppnisrétt á LPGA mótaröðinni og þjóðin öll er að springa af stolti og gleði yfir að eiga kvenkylfing í heimsklassa. Hún veit hvað þarf á keppnisdegi:

HVER ER BESTA FÆÐAN TIL AÐ TIL NÁ UPP ORKU OG EINBEITINGU FYRIR ÁTÖK? 
„Ég þarf að borða hollan og góðan morgunmat. Það er númer eitt tvö og þrjú. Oftast eru það tvö spæld egg, avocadó, tómatar á ristað brauð og hafragrautur með ávöxtum.

HVAÐ ERTU MEÐ Í VASANUM TIL AÐ VIÐHALDA ORKUNNI? 
Ég bý mér stundum til túnfisksamloku eða hnetusmjörs- og bananasamloku til að hafa með mér í mót. Svo borða ég oft líka banana á meðan ég spila.

HVAÐA BÆTIEFNI HENTA ÞÉR BEST BEST EF EINHVER? 
Varðandi bætiefnin þá nota ég engin bætiefni. Mamma segir mér að taka lýsi og vítamín en ég gleymi því alltaf“ segir Ólafía og hlær.

HVAÐ ER FRAMUNDAN HJÁ ÞÉR Í SUMAR?
„Í sumar verður brjálað að gera að keppa og ég verð á ferðalagi út um allt. Ég mun eiginlega búa í ferðatöskunni“ segir Ólafía, sem gaf sér tíma í að tala við okkur á milli stórmóta í golfi.

Við óskum Ólafíu Þórunni góðs gengis á golfmótaröðinni í sumar!