Nærum og njótum

12 Sep 2017

Við komu haustsins er mikilvægt að næra sig vel og passa að streita yfir verkefnum hversdagsins nái ekki tökum á okkur. Styrkja ónæmiskerfið með góðum bætiefnum og jurtum, borða hollan mat og hreyfa sig - en það er ýmislegt fleira sem hægt er að gera til að viðhalda góðri heilsu.

Mynd: Linda Sveinbjörnsdóttir, umsjónamaður Heilsuhússins á Laugavegi.

Það er mjög mikilvægt að næra sig andlega, t.d. með því að hugleiða daglega. Það þarf ekki að taka langan tíma, flestir hafa 5 - 10 mín. einhvers staðar í sólarhringnum þar sem hægt er að setjast niður, loka augunum og draga andann djúpt nokkrum sinnum. Reyna að róa „apa“ hugann sem spilar sömu hugsanirnar í lykkju daginn út og inn. Gott er að byrja á að setja nokkra dropa af Frankincense ilmkjarnaolíu í lófann og anda vel að sér. Hún hægir á andardrættinum og léttir á lungunum, styrkir ónæmiskerfið og hefur ýmiskonar fleiri góð áhrif á okkur. Regluleg hugleiðsla að morgni til dregur ekki einungis úr streitu heldur skerpir einbeitingu og hjá lpar okkur að halda jafnari orku yfir daginn.

Ég nota ilmkjarnaolíur mikið í daglegu lífi, best þykir mér að nota þær í ilmolíulampa eða setja í lófann og anda að mér. Þannig fæ ég áhrifin beint í blóðstreymið í gegnum lyktarskynið. Ilmkjarnaolíur innihalda lífskraft plantnanna og geta hjálpað okkur gríðarlega mikið. Sem dæmi um sítrusolíur þá getur Bergamot olían ýtt undir myndun serótóníns í líkamanum og þar með lyft okkur upp andlega, Orange olían getur gefið gleði og hlýju í hjartað og Lemon olían er mjög bakteríudrepandi og er ein besta olían til að hafa í ilmolíulampanum til að halda kvefpestum frá. Svo má benda á olíur eins og Rosemary, Peppermint, Basil og Marjoram sem örva og styrkja taugakerfið og auka einbeitingu og minni.

Annað sem mér finnst algjör snilld eru Blómadroparnir hennar Kristbjargar. Ég hef notað þá mikið til að hjálpa mér og mínum nánustu í gegnum ýmsar hindranir. Slökun er gott að nota ef mikil spenna er í líkamanum, Innsæi ef síhugsanir eru að koma í veg fyrir svefn og Lífsbjörgina við kvíða og áföllum.

Það er líka mjög nærandi að fara í gönguferð í skóglendi. Í Japan kallast þetta að stunda skógarböð (forest bathing) og hefur verið sannað að það hefur ýmis góð áhrif á heilsuna; t.d. að minnka framleiðslu stresshormóna í líkamanum, styrkja ónæmiskerfið og efla almenna vellíðunartilfinningu. 

Njótum þess að vera úti í hreinni náttúru, finna úðann af kraftmiklum fossi á andlitinu, baða okkur í skóginum eða standa á klettóttri strönd og horfa út yfir hafið hvort sem það er úfið eða stillt. Leyfum gjöfum náttúrunnar að næra okkur bæði andlega og líkamlega og ekki gleyma að leika okkur og njóta andartaksins.