Járn

15 Sep 2021

Meira er af járni en öðrum steinefnum í blóðinu. Mikilvægasta hlutverk þess er framleiðsla blóðrauða og vöðvarauða ásamt súrefnisbindingu rauðra blóðkorna. Járn er nauðsynlegt fyrir vöxt, heilbrigt ónæmiskerfi, orku og þrek.

Sé C-vítamín tekið samhliða járni eykst upptaka þess til muna. Ekki er ráðlegt að taka inn járn á meðan einhvers konar sýking stendur yfir þar sem bakteríur nota það til vaxtar. Inntaka þess getur því lengt líf bakteríanna.

Járn er helst að finna í innmat svo sem hjarta og lifur, rauðu kjöti, eggjarauðu, hnetum, fræjum, ólífum, hýðishrísgrjónum, þistilhjörtum, brokkólí, baunum, spergli, sírópi, haframjöli, þurrkuðum ávöxtum og þara. Sýrubindandi lyf, kaffi, te og fosfórprótín í eggjum eru gagnvirk járni.

Algengasti skortur á steinefnum er járnskortur. Skortur er nokkuð algengur hjá konum, aðallega vegna mikilla tíðablæðinga. Hinsvegar verður ekki oft vart vart járnskorts hjá karlmönnum. Algengt er að járnskortur verði hjá konum á meðgöngu. Blóðleysi er lokastig járnskorts. Áður en að því kemur hefur viðkomandi orðið var við þreytu, máttleysi, minnkað þol, skert viðnám við veikindum, húðfölva, stökkt hár, hárlos, svima, höfuðverk og kyndeyfð.

Æskilegt er að inntaka járns sé í samráði við lækni þar sem blóðleysi getur einnig stafað af skorti B-12 eða B-6 vítamína.

Ráðlagðir dagsskammtar eru:

  • 6 mánaða til 5 ára: 8mg
  • börn 6-9 ára: 9mg
  • karlar 10-17 ára: 11mg
  • karlar eldri en 18 ára: 9mg
  • konur 10-13 ára: 11mg
  • konur 14-60 ára: 15mg*
  • konur 61 árs og eldri: 9mg
  • þungaðar konur: 15mg*
  • konur með barn á brjósti: 15mg

* Til að járn sé nægilegt meðan á meðgöngu stendur þurfa járnbirgðir líkamans við upphaf meðgöngu að vera um 500 mg. Hluti kvenna getur ekki fullnægt aukinni járnþörf á meðgöngutíma með venjulegu fæði og þarf því að taka járn aukalega.

Tíðablæðingar og járntap vegna þeirra geta verið mjög breytilegar meðal kvenna. Það þýðir að sumar konur þurfa á meira járni að halda með fæðunni en aðrar. Ef nýtanleiki járns er um 15% ættu 15 mg á dag að fullnægja járnþörf 90% kvenna á frjósemisaldri. Sumar konur þurfa meira járn en þær fá úr venjulegu fæði.

Ráðlögð neysla fyrir konur eftir tíðahvörf er 9 mg á dag.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.

Mynd: unsplash.com