Hvað er veganismi?

05 Jan 2022

Veganismi/vegan lífsstíll snýst í grunninn um að sniðganga vörur sem eru gerðar að einhverju eða öllu leyti úr dýrum eða dýraafurðum. Einnig er litið til þess að nota einungis vörur sem eru Cruelty Free þar sem vörurnar hafa því ekki verið prófaðar á dýrum og að styðja ekki við fyrirtæki sem misnota dýr að einhverju leyti í sinni framleiðslu

Það eru ýmsar ástæður fyrir því að tileinka sér vegan lífsstíl en það getur verið t.d. af umhverfisástæðum en dýrarækt hefur mikil áhrif á umhverfið okkar og gengur á auðlindir eins og vatn og landssvæði sem dæmi. Einnig er dýravernd og ást á dýrum stór þáttur í veganisma og síðast en ekki síst heilsufarslegar ástæður. Mikilvægt er að muna að það að vera vegan snýst ekki einungis um mataræði heldur líka um annan varning svo sem fatnað, húðvörur og förðunarvörur. Það getur verið erfitt að fara í fljótu bragði í 100% vegan lífsstíl og getur þess vegna verið gott að taka þetta í skrefum og innleiða vegan lífsstíl smátt og smátt.


Vegan mataræði – hverju þarf að huga að?
Í vegan mataræði er neyslu á dýrum og dýraafurðum sleppt algjörlega og á það því við um allt kjöt, allan fisk, mjólkurvörur, egg og hunang. Einnig þarf að huga að innihaldsefnum sem geta verið í öðrum matvörum eða eru notuð við framleiðslu á matvælum svo sem gelatín, bragðefni sem geta komið úr dýraafurðum, pasta sem inniheldur egg og olíur/feiti sem geta komið úr dýrum svo dæmi séu nefnd. Þar sem þessi matvæli innihalda ýmis næringarefni sem er þá sleppt í vegan mataræði er mikilvægt að huga að því að samsetning á mat sem neytt er á vegan mataræði innihaldi þau næringarefni sem líkaminn þarfnast svo sem prótein, trefjar, steinefni og mikilvæg vítamín.

  • Baunir, Tófú og Sojabitar/Sojahakk/Sojakjöt eru dæmi um vegan fæðu sem innihalda gott prótein og trefjar en tófu og linsubaunir innihalda einnig góð steinefni svo sem járn.
     
  • D-vítamín er mikilvægt fyrir taugakerfið, ónæmiskerfið, bein, tennur og ýmislegt annað en á vegan mataræði eru sveppir góð uppspretta af D-vítamíni.
     
  • Ýmiss konar grænmeti inniheldur steinefni, andoxunarefni og vítamín og er því mikilvægt að passa upp á að auka neyslu á því. Joð er steinefni sem má finna í ýmsum fiskiafurðum og mjólkurafurðum og á vegan mataræði má finna það í þara en joð styður við skjaldkirtilinn, sem hefur áhrif á meðal annars hugræna virkni, meltingu og hjartað.
     
  • Næringager er einnig tilvalið í vegan mataræði en það inniheldur prótein, trefja og viðbætt B-vítamín svo sem B12 en það má nota til dæmis í súpur, sósur, pottrétti, salat og fleira en það veitir létt hnetubragð og finnst mörgum það einnig líkjast ostabragði.
     
  • Ýmsar hnetur og fræ innihalda síðan góðar omega fitusýrur en það má einnig finna í avocado sem dæmi.
     
  • Það getur einnig verið gott að fylgjast með stöðu steinefna og vítamína í líkamanum með því að fara í blóðprufu og taka þá inn bætiefni til þess að styrkja sig ef eitthvað vantar upp á.
     

Höfundur: Alma Katrín Einarsdóttir starfsmaður Heilsuhússins í Lágmúla

2 fyrir 1

Biona Organic Tofu 500 gr.

1.029 kr