Náttúrulegar leiðir gegn frjóofnæmi

13 Oct 2014

Góð fita, góðir gerlar og vönduð bætiefni virka vel gegn frjóofnæmi.
Inga Kristjánsdóttir næringarþerapisti og vörustjóri hjá Heilsuhúsinu gefur ráð varðandi hvernig takast má á við frjóofnæmi. Inga segir skipta máli að gera líkamanum eins auðvelt fyrir og kostur er, svo hann geti átt við ofnæmið. “Þá er best að reyna haga mataræði sínu og lífsháttum þannig að sem allra minnst óþarfa álag/áreiti skapist á líkamann, “ segir Inga. 

En hvað er gott að forðast?

“Þá fæðu sem þekkt er fyrir að erta líkamann eins og hveiti, ger og sykur sem og mjólkurmat sem er mjög slímmyndandi, og neysla á mjólkurmat getur aukið ofnæmiseinkenni.”

Inga bendir á að einnig sé gott að undirbúa ónæmiskerfið í tíma þannig að það sé í góðu jafnvægi þegar vorið og sumarið gengur í garð.

“Það gerum við með því að passa að neyta vel samsettrar fæðu. Fá nóg af gæða próteini og góðri fitu, sem og vel af grænmeti. Gæða prótein getur komið úr fiski, lífrænu kjöti, villibráð, eggjum, baunum og öðru. Einnig getur verið gott að lifa á grænmetisfæði eða skera mikið niður neyslu á dýraafurðum, en borða þá frekar feitan villtan fisk, eins og lax og silung.”

Hún bendir á að góða fitu fáum við úr hnetum, fræjum, fiski og kaldpressuðum, jómfrúarolíum  og mikilvægt sé að reyna eins og hægt sé að forðast unna matvöru og aukaefni, svosem litarefni þegar frjóofnæmi er annars vegar.

“Það er líka gott að huga vel að meltingunni og styðja vel við hana, því ef óæskilegar sveppategundir, eins og Candia Albicans ná yfirhöndunni í meltingarveginum getur það ýtt undir ofnæmi af þessi tagi. Það er líka gott að nota mikinn hvítlauk og lauk í matinn. Það getur hjálpað. Ég vil þó benda á að það getur verið erfitt að eiga við ofnæmi. Mín reynsla er sú að ef fólk nær að halda sig við gott mataræði og taka eitthvað inn af þeim bætiefnum sem ég bendi á, þá næst alltaf einhver bót.”

Inga bendir á eftirfarandi lista af bætiefnum sem geta hjálpað gegn frjóofnæmi:

  • Omega-3 fitusýrur, þar má telja fram hörfræolíu, eða góða fiskiolíu.
  • Góðir meltingargerlar (probiotics) til að viðhalda góðri þarmaflóru.
  • Quercitin, sem finnst í grænu tei, flestum berjum, vínberjasteinum (grape seed extract) og fleiru. Hægt er að fá bætiefnablöndur sem eru ríkar af quercitin og öðrum flavoníðum sem geta virkað vel.
  • C vítamín –frábær andoxari og hefur jákvæð áhrif á starfsemi öndunarfæra og er talið geta virkað á móti histamíni á margan hátt.
  • B6 vítamín, hefur gagnast ofnæmissjúklingum vel.
  • B12 vítamín getur virkað vel á ofnæmi.
  • E vítamín er kröftugur andoxari.
  • Magnesíum, getur haft þau áhrif að vöðvar í veggjum lungnapípa slaka betur á og auka súrefnisflæði þess vegna.
  • Gingko Biloba.
  • Brenninetla getur virkað sem nátturúlegt andhistamín.

Það hefur líka hjálpað mörgum að leita til hómopata eða í nálastungur. Grasalæknar hafa einnig útbúið flottar jurtablöndur fyrir ofnæmisfólk. Svo er hægt að nota nefsprey og netipot.