Heimur batnandi fer

21 May 2015

Eins og ég skrifaði um í fyrsta pistlinum mínum, þá ákváðum ég og móðir mín að fara á glúten og gerlaust mataræði fyrir um 15 árum síðan. Mamma var mikill mígrenisjúklingur og ég var líka farin að fá slík köst, þannig að við tókum báðar upp breytt mataræði. Það reyndist mikið gæfuspor fyrir okkur báðar.

Á þeim tíma var ekki mikið í boði sem kom til móts við slíkan lífsstíl. Ekkert bakarí bakaði gerlaus brauð úr öðru mjöli en hveiti svo við urðum að baka það allt sjálfar. Þá voru sama sem engar tilbúnar matvörur til sem hentuðu okkur og aðeins örfá veitingarhús á landinu sem buðu upp á mat sem við gátum borðað.

Þetta varð til þess að við urðum að að laga flestan mat frá grunni sem gat verið mjög þreytandi til lengdar. Ég var aðeins 18 ára og ekki alveg komin með það sjálfstraust sem ég er með í eldhúsinu í dag.

 

Ég verð þó að segja, að eins erfitt og þetta var á þeim tíma, þá hefur á móti verið ótrúlega gaman að fylgjast með þróuninni í þessum efnum á þessum 15 árum.

Ég hef fylgst með því hvernig markaðurinn og matvælaiðnaðurinn á Íslandi hefur þróast og breyst til að koma til móts við fólk eins og okkur mömmu.

Mikið af þeirri jákvæðu þróun sem orðið hefur, er að þakka þeirri umræðu sem sprottið hefur upp í samfélaginu á seinustu árum. Þannig hefur aukin umræða um hin ýmsu fæðuóþol og ofnæmi gert það að verkum að í dag er mun auðveldara að nálgast matvöru sem samræmist því mataræði sem slíku fylgir.

Með auknu aðgengi og sýnileika virðist líka hugsunarháttur fólks hafa breyst töluvert en það þykir mér einmitt það besta í

þessu öllu saman. 

Áður fyrr þurfti ég að taka með mér nesti hvert sem ég fór, meir að segja í öll boð, hvort sem um var að ræða lítil matarboð eða stórar veislur á við brúðkaup eða árshátíðir.

Í dag heyrir það til undantekninga ef það er ekki eitthvað á boðstólnum sem ég get borðað, verið sátt við og södd af.

Ég get sagt ykkur að lífsgæði mín jukust mikið þegar þessi breyting varð. Matarboð og veisluhöld urðu aftur eitthvað til að hlakka til og hafa gaman af.

Þá finnst mér æðislegt að sjá breytinguna á því viðmóti sem svona „öðruvísi“ mataræði fær hjá fólki almennt.

Þegar ég byrjaði að vinna í Heilsuhúsinu fyrir 10 árum, þá voru þeir viðskiptavinir sem ég ræddi við og afgreiddi, yfirleitt í eigin erindagjörðum. Það er tiltölulega nýlega sem ég hef tekið eftir því að í Heilsuhúsið koma sífellt fleiri, vegna hagsmuna annarra en þeirra eigin.

Fólk er til dæmis að fara halda matarboð og einn gesturinn er jurtaæta (vegan) eða þolir ekki mjólkurvörur, eða það á von á gesti frá útlöndum sem er með glútenofnæmi eða þolir illa hveiti.

Ég verð alltaf svolítið glöð í hjarta þegar ég afgreiði þessa viðskiptavini, fólk sem leggur sig fram við að gera vel við gestina sína.

Auðvitað eigum við ennþá eitthvað í land í þessum efnum. Hins vegar finnst mér gaman að sjá hvað mikið hefur breyst á tiltölulega stuttum tíma. Nýjar vörur bætast mánaðalega í hillur Heilsuhúsanna  og oftast hægt að ganga að því að vísu að veitingarstaðir geti komið til móts við gesti varðandi  mataræði þeirra.

Það verður gaman að fylgjast með þessari þróun áfram og sjá hvert hún leiðir okkur.

Ég er að minnsta kosti sannfærð um að þetta sé allt saman á leið í rétta átt.

 

Höfundur: Hanna Guðmundsdóttir