Birna G. Ásbjörnsdóttir er með meistaragráðu í næringarlæknisfræði frá Surreyháskóla og hefur stundað nám í gagnreyndum heilbrigðisvísindum við Oxfordháskóla. Birna starfar sem ráðgjafi og veitir fræðslu byggða á næringarlæknisfræði í formi fyrirlestra og námskeiða.
Meðfylgjandi er grein Birnu G. Ásbjörnsdóttur um þarmaflóruna og þá þætti sem geta stuðlað að heilbrigðum meltingarvegi.
Þarmaflóran
Eins og nafnið gefur til kynna þá er þarmaflóran staðsett í meltingarvegi og þörmum. Við erum með bakteríur og aðrar örverur sem lifa í munnholi og síðan fjölgar þeim því neðar sem við förum og eru þær flestar í ristlinum. Meltingarvegurinn er sá hluti líkamans sem kemst í snertingu við ytra umhverfi eins og húð og lungu. Þarmaflóran verður því fyrir áhrifum frá umhverfinu (1).
Þrátt fyrir að hvert og eitt okkar sé með sína einstöku flóru þá þjónar hún sama tilgangi hjá okkur öllum. Þarmaflóran hefur bein áhrif á heilsufar okkar, andlegt og líkamlegt. Bakt-eríurnar hjálpa okkur að brjóta niður fæðu og melta hana ásamt því að framleiða ákveðin vítamín og önnur efni sem eru okkur nauðsynleg. Heilbrigð þarmaflóra er forsenda heilbrigðrar starfsemi meltingarfæranna (2). Samkvæmt National Institude of Health er einn af hverjum fimm einstaklingum greindur með sjúkdóm í meltingarvegi einhvern tímann á lífsleiðinni.
Dysbiosis – röskun á þarmaflóru
Örveruflóra meltingarfæranna getur raskast eða skaðast (dysbiosis). Einkenni koma þá oftast fram sem uppþemba, loftmyndun, hægðatregða eða lausar hægðir. Ástæður geta verið margar s.s. slæmt mataræði (3). Notkun ákveðinna lyfja, þá helst sýklalyfja, raskar jafnvægi þarmaflóru en getur einnig haft slæm áhrif á þarmaveggina (4). Heilbrigði þarmaveggja er mikilvægt þar sem þeir stýra því hvað fer frá meltingarvegi út í líkamann. Ef þarmaveggir eru ekki heilbrigðir hleypa þeir mögulega bólgumyndandi efnum (t.d. liposaccharides frá bakteríum) í gegn sem getur valdið margþættum vandamálum og leitt til sjúkdóma (5).
Flestir upplifa óþægindi út frá meltingarvegi einhvern tímann á lífsleiðinni. Það veltur á einkennum og hversu oft þau koma, hve mikil áhrif þau hafa á lífsgæði. Uppþemba, brjóstsviði, harðlífi, niðurgangur, ristilkrampar og iðraólga (IBS) eru nokkur dæmi (6).
Mataræði
Eitt áhrifaríkasta verkfæri til að vinna með heilsu er fæðan. Hægt er að hafa áhrif á þarmaflóruna með því að gera breytingar á fæði. Rannsóknir staðfesta að ef skipt er úr hollu trefjaríku fæði yfir í fæðutegundir sem innihalda viðbættan sykur ásamt slæmri fitu verður mælanleg breyting á þarmaflóru á aðeins einum degi (7). Röskun á þarmaflóru getur leitt til bólgusjúkdóma, einkum í meltingarvegi (3).
Þróunin síðustu áratugi hefur verið meira unnin fæða og útkoman næringarsnauðari afurðir. Notkun á skordýraeitri, tilbúnum áburði og erfðabreyttum matvælum hefur einnig aukist. Í vinnsluferli matvæla er iðulega bætt við aukaefnum til að lengja geymslutíma, gefa „betra“ bragð, útlit o.sv.fr. sem hefur í för með sér slæm áhrif á heilsu. Auk þess skortir unnar matvörur gjarnan trefjar.
Trefjar – prebiotics
Það er mikilvægt að innbyrða nægilega mikið af trefjum til að viðhalda góðri meltingu. Trefjar þjóna meðal annars þeim tilgangi að örva þarmahreyfingar og þar með koma í veg fyrir harðlífi. Einnig eru trefjar mikilvægar til að viðhalda góðri þarmaflóru (8). Laukur, hvítlaukur og þistilhjörtu eru t.d. fæðutegundir sem flokkast sem „prebiotic“ eða „forlífs“ fæðutegundir, þ.e. innihalda mikilvæg efni úr fæðu sem viðhalda heilbrigðri örveruflóru í meltingarveginum.
Mjólkursýrugerlar - probiotics
Fjöldi rannsókna benda til þess að mjólkursýrugerlar (probiotics) geti styrkt og hlúð að þarmaflórunni, sér í lagi eftir inntöku sýklalyfja (9,10,11). Einnig geta mjólkursýrugerlar dregið úr líkum á sýkingum þar sem þeir hafa styrkjandi áhrif á ónæmiskerfið (12,13). Rannsóknir hafa sýnt jákvæðar niðurstöður á gagnsemi Lactobacillus plantarum 299v (LP299v) til meðhöndlunar á iðrabólgu (IBS) (14,15,16). Í samanburði við aðra gerla, dregur Lactobacillus plantarum 299v meira úr tíðni og einkennum iðraólgu (IBS) og leiðir frekar til bata (17). LP299v hefur því sýnt breiðari verkun en aðrir mjólkursýrugerlar.
Í hnotskurn
Sú fæða sem við veljum okkur daglega hefur áhrif á örverur sem lifa í meltingarvegi okkar. Þessar örverur nærast og dafna á því fæði sem við látum ofan í okkur. Val okkar á fæði ræður því hvaða örverur dafna best. Að koma í veg fyrir röskun á örveruflóru þarmanna (dysbiosis) er áhrifarík leið til að fyrirbyggja sjúkdóma. Hollt mataræði sem er ríkt af trefjum (sérstaklega prebiotics) er án efa mikilvægur þáttur ásamt reglulegri inntöku mjólkursýrugerla.
HEIMILDIR