ÞARMAFLÓRAN OG GLÚTEN
Hvað er glúten?
Glúten er samheiti fyrir prótín (eggjahvítuefni) sem finna má í hveiti, byggi og rúg. Hafrar eru gjarnan glúten smitaðir í vinnsluferli.
Glútenóþol
Til að greinast með glútenóþol (Celiac Disease) þarf tvennt að koma til; ákveðnir erfðaþættir (HLA-DQ2 og DQ8) og glúten. Glútenóþol er greint með blóðprufu þar sem mæld eru mótefni gegn prótíni sem kallast transglutaminase (tTG). Einstaklingar sem eru með glútenóþol fá bólgubreytingar í slímhúð smáþarma við neyslu glútens sem er síðan staðfest með sýnatöku. Þessar breytingar hafa áhrif á frásog ýmissa næringarefna og í kjölfarið geta komið fram einkenni vannæringar. Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar, sérstaklega hjá börnum sem eru að vaxa og þroskast.
Áætlað er að um 1% vesturlandabúa séu greindir með glúteóþol. Algengt er að glútenóþol sé vangreint eða greint of seint, allt að 6 til 11 árum eftir að einkenni byrja (1)
Börn sem tekin eru með keisaraskurði eru líklegri til að greinast með glútenóþol síðar á ævinni (2). Börn sem fá tíðar sýkingar á fyrstu árum ævinnar eru í aukinni áhættu (3,4). Einnig hefur verið sýnt fram á aukna áhættu vegna inntöku á sýrubindandi lyfjum (PPI´s) (5).
Einkenni geta verið margvísleg en uppþemba, þrálátur niðurgangur og ýmis óþægindi út frá meltingarvegi eru algengust. Járnskortur, þreyta og vanlíðan eru meða þeirra einkenna sem geta komið í kjölfarið. Óbein einkenni geta einnig átt sér stað og haft áhriif á húð, bein, liði, briskirtil eða taugakerfi (6).
Glútennæmi
Glútennæmi er talið vera mun algengara en glútenóþol. Glútennæmi hefur verið staðfest með tvíblindum rannsóknum (7,8). Líkur eru á að 0.5 – 13% vesturlandabúa þjáist af glútennæmi. Einkenni geta verið mjög margbreytileg en koma gjarnan eftir neyslu á glútenríkum afurðum eins og brauði eða pasta (9). Einstaklingar greindir með iðraólgu (IBS) bregðast vel við glútenlausu fæði (10,11)
Glúten og örverur í meltingarveginum
Ef skortur er á magasýrum getur það stuðlað að ofvexti á óæskilegum örverum (12,13). Ef magasýrur eru of háar hefur það letjandi áhrif á framleiðslu mikilvægra ensíma og gallvökva sem einnig getur leitt til ofvaxtar á örverum í þörmum (14,15). Sýnt hefur verið fram á að ákveðnar örverur geta aukið líkur á glútennæmi og jafnvel glutenóþoli.
Candida albicans er dæmi um örveru sem getur fjölgað sér í þörmunum og valdið óþægindum. C. albicans getur bundist ákveðnum prótínum í þörmum sem síðan getur leitt til ónæmissvörunar (cross-reactivity) sem er alveg hliðstætt því sem gerist hjá einstaklingum með glútenóþol. Þetta þýðir að viðkvæmur einstaklingur (erfðafræðilega móttækilegur) getur þróað glútenóþol út frá ofvexti á C. albicans (16).
Sýnt hefur verið fram á röskun á örveruflóru í skeifugörn hjá einstaklingum sem ná ekki bata á glútenlausu fæði, s.s. meinvirkum E. coli bakteríum og ofvöxt á Neisseria flavescens og P. aeruginosa. (17,18,19)
Melting og frásog glútenprótína í smáþörmum veltur m.a. á þeirri örveruflóru sem þar ríkir og því mögulega hægt að hafa áhrif á þetta ferli með íhlutandi aðgerðum (20).
Óbein áhrif glútens á heilsu
Annarskonar áhrif glútens eru einnig þekkt. Þegar glúten kemur niður í smáþarmana örvar það framleiðslu á prótíni í þörmunum sem nefnist Zonulin. Með aukinni framleiðslu á Zonulin eykst gegndræpi þarma, þ.e. samskeyti frumna gliðna tímabundið og hleypa t.d. prótínum og/eða örverum út í blóðrásina. Hjá viðkvæmum einstaklingum getur þá glúten valdið óæskilegum áhrifum fyrir utan meltingarveg, s.s. bólgum í vefjum, taugakerfi eða geðhrifum (21,22). Glútenóþol og glutennæmi hefur verið rannsakað í tengslum við ýmsa sjúkdóma s.s. MS (23), einhverfu (24) auk geðsjúkdóma. Zonulin framleiðsla mælist hærri hjá einstaklingum sem greindir eru með glútenóþol og sykursýki I (25). Rannsakendur beina nú sjónum að Zonulin prótíníni í tengslum við aðra sjálfsónæmissjúkdóma (26, 27).
Glútenlaust eða ekki?
Þegar um glútenóþol er að ræða valda glútenprótínin í raun sjálfsónæmi sem framkallar skemmdir í þramaveggjum einstaklingsins. Eina ráðið gegn slíkum skemmdum er að hætta neyslu á glúteni til frambúðar. Rannsóknir sýna að þrátt fyrir glútenlaust fæði eru allt að 60-80% áfram með einkenni og bóglubreytingar í þömum (28).
Glútenóþol fer vaxandi. Í Bandaríkjunum hefur tíðni þess aukist fimmfalt síðustu áratugi (29, 39), fjórfaldast í Bretlandi (31) og tvöfaldast í Finnlandi (32) svo dæmi séu tekin. Möguleg skýring er aukin notkun sýklalyfja, sýrubindandi lyfja ásamt vaxandi neyslu á unnu og næringarsnauðu fæði. Allir þessir þættir hafa skaðleg áhrif á örveruflóru þarmanna.
Ef líkur eru á glútenóþoli þarf að leita til læknis og fá úr því skorið. Þegar grunur á glutennæmi er fyrir hendi er hægt að forðast glútenafurðir í nokkrar vikur og kanna þannig hvort einkenni minnki eða hverfi. Engin þekkt skortseinkenni fylgja glútenlausu fæði ef fjölbreytni er fylgt í fæðuvali (33).
Að lokum
Örverur í meltingarveginum ráða miklu um hvað við fáum út úr fæðinu sem við veljum okkur á diskinn. Röskun á þessari mikilvægu örveruflóru getur haft í för með sér sýkingar og aukið líkur á ofnæmum og/eða óþolum hjá ákveðnum hóp af fólki. Heilbrigð þarmaflóra er forvörn gegn slíkum kvillum.
Höfundur: Birna G.Ásbjörnsdóttir