Heilsuhúsið hefur sölu á umbúðalausri matvöru

05 Jun 2019

Heilsuhúsið hefur hafið sölu á umbúðalausri matvöru en fjölmargir viðskipavinir hafa óskað eftir að geta keypt þurrvöru og sett beint í eigin ílát eða aðrar umhverfisvænar umbúðir.  

Mynd: Lára Pétursdóttir umsjónarmaður Heilsuhússins í Kringlunni með umbúðausu áfyllingarnar í bakgrunni.

Heilsuhúsið hefur ákveðið að svara ákalli viðskiptavina um umbúðalausa þurrvöru til að draga úr umhverfissóun.Til að byrja með verða umbúðalausu vörurnar sem koma allar frá Sólgæti til sölu í Heilsuhúsinu Kringlunni en ef þjónustan mælist vel fyrir verður boðið upp á umbúðalausar vörur í fleiri verslunum Heilsuhússins.

Viðskiptavinir eru hvattir til að koma með eigin ílát og fylla á haframjölið, hrísgrjónin, chia fræin, þurrkuðu jarðarberin og svo margt fleira en yfir 30 vörutegundir eru í boði og allar lífrænt ræktaðar. Fyrir þá sem það kjósa verða pappírspokar einnig í boði.

„Það er með mikilli ánægju sem við bjóðum viðskiptavinum Heilsuhússins umbúðalausa matvöru í lausasölu en við höfum um nokkurt skeið boðið umbúðalausar hreinlætisvörur eða áfyllingar, til að mynda í þvottaefnum og sjampói sem og tannkremstöflur svo fátt eitt sé nefnt. Það er mikilvægt að auka framboðið af umbúðalausri vöru og minnka þannig plastnotkun. Umhverfismál, heilsa og lífrænt ræktaðar vörur hafa verið starfsfólki Heilsuhússins hugleikin frá opnun eða í 40 ár og teljum við þetta mikilvægt skref til að draga úr óþarfa umbúðum og gefa viðskiptavinum kost á að stýra fullkomlega því magni sem hann kaupir“ segir Lára Pétursdóttur, umsjónarmaður Heilsuhússins í Kringlunni.