Hvernig fyllir Alda Jónsdóttir líkamann af orku?

23 Jun 2017

Heilsufréttir hafði samband við Öldu Jónsdóttir sem er kraftmikil 52 ára leiðsögukona í reiðhjóla-og gönguferðum til að forvitnast um hvernig fólk sem hreyfir sig mikið hagar mataræði sínu fyrir og á meðan átökum stendur.

Alda hefur stundað útivist í 30 ár, bæði innanlands og utan, og þá aðallega í hjóla-og gönguferðum.

„Staðgóður og fjölbreyttur morgunmatur er besta leiðin til að undirbúa átök dagsins. Ef maður er í fjallaskála eða tjaldi er hugsað um að hafa létt með sér og ef maður þarf að bera matinn á sér þá kemur haframjölið með rúsínum og fræjum sterkt inn. Einnig finnst mér banani eða epli útí grautinn æði ef ég kem því við. Ég hita svo vatn á brúsa til að hafa út í sviss miss í hádegismatnum og er oftast með flatkökur með osti eða hangikjöti. Erlendis á hóteli er borðað gróft og fjölbreytt fyrir hreyfiferðir og þar finnst mér egg og beikon best ásamt ávöxtunum. Ég elda svo alltaf kvöldmat í fjallaferðum og borða staðgott í hótelferðum.

Á meðan ég hjóla eða geng eru hnetur og þurrkaðir ávextir í pokanum og ekki má nú gleyma súkkulaðinu í verðlaun eftir góða brekku. Ég þarf mikið vatn í smáskömmtum svo ég er sjaldan með tóman maga. Annars er það sérstakt að ef maður er í hóp þá er stoppað og borðað saman sem er ómissandi hluti ferðarinnar en ef maður er ein á ferð þá þarf ég að passa mig að muna eftir að borða - og nasla þá meira í hnetur og ávexti. Harðfiskur hefur svo verið að koma sterkur inn sem nasl hjá mér undanfarið.

Varðandi bætiefni þá kaupi ég fjölvítamín og steinefni til að setja út í drykkjarvatnið ef ég er að hjóla í miklum hita. Þegar ég skottast stuttar ferðir þá tek ég orkustykki og/eða banana með í vasann.

Í sumar verður hjólað og gengið innanlands. Búið er að skipuleggja hjólaferð með aðsetur á Galtará á Eyvindarstaðarheiði með vinahóp og ég ætla líka að ganga í skipulagðri ferð með systur minni á fjöll í Svarfaðardal. Er einnig að plana að hjóla á Vestfjörðum smá hring - ef ég tek ferjuna með hjólið yfir á Brjánslæk þá stefni ég á að hjóla Lokinhamraveg og jafnvel að hjóla smá hring þaðan á Patró“ 
segir þessi kraftmikla kona að lokum.