Plokkað til að gleyma!

22 May 2018

Að plokka er tiltölulega nýtt fyrirbæri á landinu en í vor og seinni hluta vetrar hefur þessi iðja heldur betur vakið athygli. Fjölmargir hafa látið til sín taka við plokkið og fremstur á meðal jafningja er kannski Einar Bárðarson. Við fylgdumst með honum við plokkið og náðum að kasta fram nokkrum spurningum.

FYRST SPURÐUM VIÐ HVERNIG ÞETTA BYRJAÐI. 
„Kveikjan að plokkinu er frá Svíþjóð og í febrúar og mars var ég farinn að sjá fréttir af þessu plogging, eins og þeir kalla það, skjóta upp kollinum á samfélagsmiðlunum mínum. Þá fór ég að hugsa að það væri nú fátt gagnlegra en að geta orðið þess valdandi, eða allavega vera einn þeirra, sem kæmi þessu æði af stað á Íslandi. Þannig að ég fór að leita að góðu íslensku orði og fann það með aðstoð málvöndunarhóps á Facebook og ég stofnaði hópinn Plokk á Íslandi núna 16. mars. Síðan hefur hann vaxið hratt og örugglega og telur nú rúmlega 5.000 manns. 

En það er ekki hægt að horfa framhjá því að í gegnum árin hafa nokkrir gríðarlega öflugir Íslendingar verið mér hvatning til að hrinda þessu af stað. Tómas J. Knútsson meðlimur okkar og talsmaður um betri sorpmenningu á Íslandi til áratuga er einn þeirra. Annar er Sigurður G. Guðjónsson lögmaður sem hefur haldið úti áralangri vitundarvakningu á Facebook-síðunni Rusl í Reykjavík. Þá má segja að Eyþór Hannesson á Egilsstöðum sé í raun fyrsti plokkari landsins. Ég sá hann í sjónvarpsþættinum Landanum í fyrra en hef í raun aldrei hitt hann. Svo eru það Björg Fríður Freyja sem staðið hefur í stafni sjálfboðaliða sem þrífur borgarlandið í mörg ár og feðgarnir Svavar Hávarðarson og Atli Svavarsson og þeirra magnaða frumkvæði. Þeir eru tveggja manna umhverfisher! Við það að fylgjast með þessu fólki fylltist ég metnaði fyrir því að láta til mín taka í þessum efnum og leggja hönd á plóg. 

Eftir að Facebook-síðan fór af stað og þetta ævintýri allt fékk byr undir báða vængi hef ég kynnst gríðarlegum fjölda einstakra manneskja sem gera sér það til gamans að fara út og tína upp rusl eftir okkur hin.“ 

HVAÐ HELDUR ÞÚ AÐ ÞAÐ SÉU MARGIR SEM HAFA TEKIÐ TIL HENDINNI VIÐ PLOKKIÐ? OG HVAÐ ER BÚIÐ AÐ PLOKKA MIKIÐ? 
„Það eru mörg þúsund manns búnir að taka til hendinni og eru að taka til hendinni og munu halda áfram að gera það. Það eru hundruð tonna sem með þessum hætti hafa verið tekin úr náttúrunni og borgarlandinu. Bara á Degi jarðar sótti hverfastöð Reykjavíkur 155 ruslasekki í hverfin austan Elliðaáa. Þetta var bara einn dagur og eitt afmarkað hverfi.“ 

REYKJAVÍKURBORG VEITTI HÓPNUM VIÐURKENNINGU. 
„Ég tók við þeirri viðurkenningu af mikilli auðmýkt og þakklæti fyrir hönd meðlima Plokks á Íslandi. Fólk sem hefur það eitt að markmiði að hætta að benda á aðra og grípa sjálft til aðgerða gegn rusli í umhverfinu. Það er svona grasrótarstarfi mikil hvatning að fá klapp á bakið, hrós eða viðurkenningu sem þessa frá samfélaginu. Hrós og hvatning eru jú eitt af lykil gildum hópsins og þess vegna þykir okkur afar, afar vænt um þetta.“

AÐ LOKUM, HVAÐ ÞARF TIL AÐ BYRJA AÐ PLOKKA? 
„Gott hjartalag, einlægan velvilja og ruslapoka.“