Rakel Garðarsdóttir er forsvarsmaður Vakandi, sem eru samtök sem vilja sporna gegn sóun matvæla. Heilsufréttir langaði að forvitnast um þetta þarfa málefni og náði tali af Rakel.
Fyrsta spurning er kannski hvað Vakandi gerir og hvort allir geti verið með.
„Já, Vakandi er heldur betur fyrir alla. Ég stofnaði samtökin fyrir nokkrum árum til að vekja athygli á matarsóun og til að halda umræðunni á lofti með það að markmiði að við myndum minnka matarsóun. Markmið mitt var skýrt; ef ég gæti breytt neysluhegðun minni til hins betra, gætu það allir. Og þó það hljómi eins og klisja, þá lifi ég eftir orðum Ghandi sem sagði að breytingar verða að byrja hjá okkur sjálfum, ekki hjá öðrum. Ekki hjá nágrannanum, ekki hjá stjórnvöldum eða grasrótarhópum, heldur verða þær að byrja hjá okkur sjálfum.“
Rakel heldur áfram: „Matarsóun hefur í för með sér ýmis neikvæð umhverfisáhrif, mikla sóun á fjármunum og samfélagsleg áhrif - þar sem þeim mat sem er sóað væri mögulega hægt að nýta annars staðar í heiminum. Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum er talið að um 1,3 milljarðar tonna af ætum mat sé hent árlega í heiminum. Það jafngildir því að 30-40% af þeim mat sem framleiddur er endar beint í ruslinu. Sem er hrikaleg há tala. Samkvæmt útreikningum myndi þetta magn duga til að fæða um þrjá milljarða manna í heiminum, eða um 40% af íbúum jarðar. Á sama tíma fer níundi hver jarðarbúi svangur að sofa; börn, konur og menn. Á Íslandi er talið að við séum að henda um 30% af þeim mat sem framleiddur er. Mikið af þeim mat er innfluttur, fluttur langar leiðir með skipum sem spúa óhreinni olíu út í umhverfið og í umbúðum sem oftar en ekki eru úr plasti. Allt þetta er því til einskis ef við erum svo bara að henda þessum mat. Matarsóun snertir nefnilega svo ótrúlega marga fleti þegar kemur að umhverfismálum.“
Matarsóun og mengun
„Það má segja að matarsóun sé ábyrg fyrir 8% af þeim gróðurhúsaloftegundum sem sleppa út í andrúmsloftið. Ef matarsóun væri land – væri það þriðja stærsta landið í útblæstri, á eftir Kína og Bandaríkjunum. Ísland er aðili að sameiginlegu markmiði með ríkjum Evrópusambandsins, sem gengur undir nafninu Parísarsáttmálinn, um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2020. Vondu fréttirnar eru þær að við erum langt frá markmiðum okkar.“
„Sumarið í ár bendir heldur betur til þess að loftslagsbreytingar eigi sér stað - með skrýtnum veðrum útum allt - og lífshættulegum eins og sést af fréttum t.d frá Skandinavíu þar sem þurrkar eru svo miklar að það er ekki til hey fyrir dýrin í vetur og því er verið að slátra dýrum. Skógareldar sem ógna lífi og taka heimili. Þetta er skelfilegt.“
Hvað getum við gert?
„Þar komum við inn, við sem einstaklingar. Við getum öll tekið þátt í að minnka áhrif okkar á umhverfið. Eitt af því sem er mjög auðvelt að gera er að hætta að henda mat. Það gerum við með því að vera aðeins meðvitaðri neytendur; passa betur upp á það sem við kaupum og nýta matinn betur. Geymum afganga og kaupum ekki of mikið. Við verðum að líta á þetta sem jákvæða og skemmtilega áskorun en ekki eitthvað neikvætt. Og allir græða - betri heimur og þyngri budda.“
Áhugasamir geta kynnt sér nánar þetta spennandi og þarfa málefni á Facebooksíðu Vakandi.
Mynd: Rakel Garðarsdóttir, forsvarsmaður Vakandi.