Súpan hentar einstaklega vel fyrir matarboð þar sem hún er mild, inniheldur nánast ekkert sem fólk hefur ofnæmi fyrir, börn elska hana yfirleitt og hún er nægilega saðsöm til að geta staðið ein og sér sem léttur kvöldverður með til dæmis góðu brauði. Auk þess vekur hún skemmtilegar umræður fyrir þá sem hafa áhuga á ferðalögum um framandi slóðir. Mikilvægt er að nota bestu fáanlegar gulrætur til að súpan verði mátulega sæt. Athugið að karrí getur innihaldið fræ.
- 1 stór laukur
- ferskt engifer, biti á stærð við vínber
- 4 hvítlauksrif
- 300 g gulrætur
- 150 g sætar kartöflur
- 2 msk kókosolía
- 1 tsk karrí
- 2 stk gerlausir grænmetisteningar
- 750 ml vatn
- 150 ml kókosmjólk
- 1 tsk salt (Himalaya- eða sjávarsalt)
- hvítur pipar
- 7−10 saffranþræðir (má sleppa en gefur fallegan lit)
Aðferð
- Afhýðið lauk, engifer og hvítlauk, gulrætur og sætar kartöflur og saxið gróft.
- Hitið kókosolíu í potti og steikið laukinn þar til hann fer að mýkjast. Bætið hvítlauk og engifer út í og steikið áfram í nokkrar mínútur. Bætið karríi út í og hrærið vel.
- Bætið helming af vatni (375 ml) út í ásamt gulrótum og sætum kartöflum. Sjóðið í um 30 mín eða þar til grænmetið fer að mýkjast. Bætið afganginum af vatninu ásamt grænmetisteningum út í og hrærið vel. Látið malla við vægan hita í 15 mín. Bætið kókosmjólk út í súpuna ásamt saffranþráðum og salti og pipar eins og þarf.
- Maukið súpuna í nokkrar mínútur í matvinnsluvél til að fá silkimjúka áferð eða notið töfrasprota.
Glútenlaus, eggjalaus, hnetulaus, mjólkurlaus, vegan
Fyrir 4