Sæl vertu.
Ég skil vel að þetta sé farið að taka á ykkur og ekki til neitt einfalt ráð við þessu. Fókusinn myndi ég þó segja að ætti að vera á meltingunni og þá ætti ónæmiskerfið að ná sér á strik.
Það er auðvitað mikilvægt að halda áfram að halda frá honum þessum matvörum sem valda honum óþoli og ofnæmi. Ofnæmi er auðvitað eitthvað sem er mun alvarlegra og mjög mikilvægt að sleppa fæðu sem vekur ofnæmisviðbrögð. Óþolið er miklu lúmskara og oft erfitt að átta sig á hvaða fæða veldur því. Það er spurning hvort eitthvað leynist enn í mataræði hans sem getur verið að trufla? Það er um að gera að skoða það.
Þú minnist ekkert á hvaða fæðu hann borðar. Er hann duglegur við að borða grænmeti, kjöt, fisk og allan hollan og góðan mat? Er mataræðið hans fjölbreytt og næringarríkt? Endilega skoðaðu það ef svo er ekki og leitaðu allra ráða til að hann nærist vel.
Það er mjög mikilvægt að hann fái góðgerlana (Acidophilus) og mikilvægt að velja einhverja vöru sem hentar þetta ungum börnum. Það gæti hjálpað honum að fá smá papaya ensím með máltíðunum, bara brot úr töflu (Þetta eru tuggutöflur) sem hann gæti tuggið fyrir máltíðir. Það er óhætt að gefa börnum papaya ensím og yfirleitt finnst þeim þau bragðgóð.
Ég myndi prófa að gefa lýsinu frí og gefa honum frekar aðra olíu á meðan. Til dæmis Efalex. Svo gætir þú gefið honum D vítamín dropa með, þar sem Efalex inniheldur ekki D vítamín.
Þú getur séð vörurnar sem ég tala um hér til hægri á síðunni.
Gangi ykkur vel og vonandi fer guttanum þínum að líða betur.
Kær kveðja,
Inga næringarþerapisti